Fréttir

Skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna 2014

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2014 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans.

Góðar heimtur

Innköllun jafnréttisáætlana grunnskóla er lokið og skiluðu 96% grunnskóla fullnægjandi jafnréttisáætlun eða umbeðnum gögnum til Jafnréttisstofu. Jafnréttisstofa óskar skólunum alls hins besta í skóla- og jafnréttisstarfinu og vekur um leið athygli á 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en þar segir í 3. málsgrein: Fyrirtæki og stofnanir skv. 2. mgr. skulu afhenda Jafnréttisstofu afrit af jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu sinni ef jafnréttisáætlun er ekki fyrir hendi ásamt framkvæmdaáætlun þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því. Enn fremur skulu fyrirtæki og stofnanir skv. 2. mgr. afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um framgang mála þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því innan hæfilegs frests. Í samræmi við ofangreint mun  Jafnréttisstofa kalla eftir skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála frá grunnskólum skólaárið 2016 – 2017. 

Fyrirlestraröð Stígamóta um margbreytileika og forréttindi

Á haustmisseri opna Stígamót dyrnar upp á gátt og bjóða upp á morgunverðarfyrirlestra um margbreytileika  og forréttindi. Tilgangur þessarar fyrirlestrarraðar er að skoða hvernig ólíkur bakgrunnur ýmissa hópa hefur áhrif á forréttindi, fordóma og mismunun. Sérstök áhersla verður á ofbeldi og aðgang að þjónustu til að vinna úr afleiðingum þess. 

Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn

„Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn“ var yfirskrift 15 ára afmælis Jafnréttisstofu sem haldið var hátíðlegt í gær 15. september. Í tilefni dagsins settu þrír karlmenn upp kynjagleraugu og tjáðu sig um jafnrétti kynjanna.  Um hundrað manns þáðu afmælisboð Jafnréttisstofu og gæddu sér á íslenskri kjötsúpu við harmonikkuleik Hildar Petru Friðriksdóttur, ráðgjafa hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fór yfir stöðu mála og Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu, flutti kveðju frá Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. Því næst var körlunum gefið orðið.

Jafnréttisstofa gefur út bækling um fyrstu skrefin á vinnumarkaði

Jafnréttisstofa gaf nýlega út bæklinginn Lykilinn að velgengni á vinnumarkaði. Um er að ræða endurútgáfu á bæklingi sem gefinn var út árið 2000 sem hluti af jafnréttisátaki Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu og  Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Markmiðið með útgáfu bæklingsins er að veita þeim sem eru í þann mund að fara út á vinnumarkaðinn hagnýt ráð um atvinnuleit og fyrstu skrefin á vinnumarkaði. 

Jafnréttisstofa gefur út tölulegar upplýsingar um stöðu kvenna og karla 2015

Í tilefni af  15 ára afmæli Jafnréttisstofu kemur í dag út útgáfa með tölulegum upplýsingum um stöðu kvenna og karla á ýmsum sviðum íslensks samfélags. Efnistökum er skipt í kafla sem fjalla um; íbúa og fjölskyldur, vinnumarkað og laun, menntamál, stjórnmál, áhrifastöður í samfélaginu, heilbrigðismál ásamt tölfræði um afbrot og ofbeldi. 

Ársskýrsla Jafnréttisstofu 2014 komin út

Ársskýrsla Jafnréttisstofu um starfsárið 2014 er nú komin út. Í henni má finna yfirlit yfir helstu verkefni Jafnréttisstofu og þær áherslur sem lagðar voru í jafnréttismálum á umræddu tímabili.

Jafnréttisstofa 15 ára

Jafnréttisstofa fagnar 15 ára afmæli sínu þriðjudaginn 15. september. Af því tilefni er gestum og gangandi boðið til afmælismálþings og í súpu að Borgum við Norðurslóð á Akureyri. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flytur erindi um stöðu jafnréttismála fyrr og nú og gefur síðan körlum orðið í ljósi þess að íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn. 

Námskeið um innleiðingu jafnlaunastaðals

Fræðslusetrinu Starfsmennt hefur verið falið að halda utan um námskeið til að styðja við og auðvelda innleiðingu jafnlaunastaðals hjá stofnunum og fyrirtækjum. Stjórnvöld og aðilar á vinnumarkaði hafa sammælst um það hlutverk setursins og hvatt til samstarfs við fjölmarga fræðslu- og mannauðssjóði, sem munu greiða leið sinna félagsmanna á námskeiðin. Markmiðið er að vinna að auknu launajafnrétti og tryggja að jafnverðmæt störf séu metin eins.

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun

Þann 18 september næstkomandi stendur Reykjavíkurborg fyrir málþingi um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun í Tjarnarsal Ráðhússins. Málþingið verður hluti af þeim 100 viðburðum sem Reykjavíkurborg stendur fyrir vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Meginþema málþingsins er staða kynjaðrar fjárhagsáætlunar í dag. Að auki verður því velt upp hvaða áhrif aukin pólitísk þátttaka kvenna hefur haft á rekstur hins opinbera. Diane Elson einn fremsti sérfræðingurinn á þessu sviði verður aðalræðukona og fleiri sérfræðingar á þessu sviði taka þátt.