Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri Norðurlands eystra, undirrituðu í dag, samstarfsyfirlýsingu um átak gegn heimilisofbeldi. Í yfirlýsingunni felst að þann 1. mars n.k. mun lögreglan og félagsþjónustan á Akureyri taka upp nýjar verklagsreglur í starfsemi sinni. Markmiðin eru markvissari viðbrögð og úrræði gegn heimilisofbeldi og bætt þjónustu við þolendur og gerendur.
25.02.2015
Rúmlega þrjátíu manns frá fjölmörgum félagasamtökum mættu á vel heppnaðan vinnufund í tilefni tuttugu ára afmælis Peking áætlunarinnar. Til umræðu voru kaflarnir tólf í áætluninni, auk málefna minnihlutahópa, kynvitund og kynhneigð.
Unnið var í fimm 8 – 10 manna hópum þar sem þátttakendur ræddu hvað helst vantaði inn í Peking áætlunina miðað við þróunina síðustu tuttugu ára og hvað brýnast væri að gera. Farnar voru þrjár umferðir og skiptu þátttakendur um borð og viðfangsefni milli umferða.
24.02.2015
Í dag er öskudagur og gestir Jafnréttisstofu þennan miðvikudagsmorgun hafa því verið óvenju skrautlegir.
Hóparnir voru augljóslega búnir að æfa söngvana vel og það mátti líka sjá að metnaður í búningagerð er mikill.
Starfsfólk jafnréttisstofu þakkar öllum sem lögðu leið sína til okkar og látum hér fylgja nokkrar myndir.
18.02.2015
Jafnréttisstofa hefur sent boð til ýmissa félagasamtaka um þátttöku í vinnufundi í tengslum við tuttugu ára afmæli Peking áætlunarinnar. Fundurinn fer fram næstkomandi laugadag 21. febrúar í húsakynnum ASÍ.
Markmið fundarins er að ræða og svara spurningum á borð við: Hvaða ákvæði Pekingsáttmálans hafa íslensk stjórnvöld ekki uppfyllt? Hvað vantar í samninginn miðað við þróun síðustu 20 ára? Hver eru brýnustu verkefni jafnréttismála?
16.02.2015
Fimmtudaginn 12. febrúar mun dr. Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, halda erindi um tengsl afbrotafræðinnar og spurninga um jafnrétti kynjanna.
Þær spurningar sem verða til umræðu í fyrirlestri Helga eru meðal annars: Er jafnréttisbaráttan bara fyrir konur eða eiga karlar á brattann að sækja? Ef konur færu nú að hegða sér eins og karlar myndi ríkja skálmöld afbrota eða hvað? Ef karlar færu nú að hegða sér eins og konur værum við þá komin í draumasamfélagið?
Erindið fer fram í Deiglunni, Listagilinu á Akureyri og hefst klukkan 1700.
11.02.2015
Sterkari saman (e. Strong together) er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet (e. The Congress of Women) frá Póllandi. Markmið samstarfsins er tvíþætt. Annars vegar að auka þekkingu á birtingarmyndum kynjanna í stjórnmálum og fjölmiðlum og hins vegar að stuðla að aukinni sérfræðikunnáttu á kynjajafnrétti almennt með því meðal annars að kynna og nota verkfæri kynjasamþættingar.
11.02.2015
Miðvikudaginn 4. febrúar kl. 12.00-13.00 flytur Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri og þingkona erindið „Frá bústýru til bæjarstjóra. Um kosningarétt kvenna og þátttöku í sveitarstjórnum”.
Félagsvísindatorgið verður í stofu M101 og er öllum opið án endurgjalds.
02.02.2015