Fréttir

Opin námskeið um kynjasamþættingu

Jafnréttisstofa býður upp á opin námskeið um kynjasamþættingu í Reykjavík og á Akureyri í september. Á námskeiðunum verður fjallað um stöðu jafnréttismála á Íslandi, í hverju kynjasamþætting felst, hvers vegna við þurfum á skipulögðu jafnréttisstarfi að halda og hvernig mögulegt er að aðlaga aðferðina að starfi þátttakenda.

Bann við mismunun

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gefði út handbókina "Bann við mismunun". Tilgangur ritsins er að kynna tilskipanir ESB um jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú/lífsskoðun, aldri, fötlun og kynhneigð og þá hugmyndafræði sem þar liggur að baki.

Er kynjum gert jafn hátt undir höfði í námsbókum?

Allt frá 1976 hefur verið ólöglegt að hanna og nota kennsluefni sem mismunar kynjunum á einhvern hátt, en mjög lítil umræða hefur verið um hvort og hvernig hefur verið fylgst með því að þetta lagaákvæði sé virt og hvort eldra kennsluefni er tekið til mats að þessu leyti og þá hvernig. Í vetur sendi Jafnréttisstofa mennta-og menningarmálaráðuneytinu bréf þar sem ráðuneytið var minnt á eftirlitsskyldu þess varðandi útgáfu námsbóka skv. 23. grein jafnréttislaga.

Ný skýrsla UN Women

Ný skýrsla UN Women um stöðu kvenna í heiminum er komin út. Skýrslan er sú fimmta í skýrsluröðinni, Progress of the World’s Women, og ber yfirskriftina „In Pursuit of Justice“. Í skýrslunni er að finna úttekt á stöðu kvenna og réttindum þeirra í heiminum.

Í framtíðarlandinu - glærur og erindi

Jafnréttisstofa efndi til málstofu á ráðstefnunni Vitið þér enn eða hvað? sem fram fór á Akureyri í júní sl. Í málstofunni var fjallað um sýn fólks á framtíðarlandið, hvert við viljum stefna og hvaða áhrif loftslagsbreytingar og aðgerðir til að draga úr þeim hafa á mótun framtíðarsamfélagsins? Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs H.Í., Hlynur Hallsson, listamaður og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fluttu erindi en síðan fóru fram hringborðsumræður með þátttöku allra málstofugesta.

Fræðikonan og aðgerðasinninn Vandana Shiva í Háskólabíói

Vandana Shiva sem er heimsþekkt fyrir störf sín í þágu sjálfbærrar þróunar, umhverfis og mannréttinda mun halda opinn fyrirlestur kl. 17 þann 29. ágúst nk. í Háskólabíói. Vandana Shiva er einn af þekktustu talsmönnum umhverfisfemínisma í heiminum og lítur svo á að kapítalisminn og feðraveldið séu tengd órjúfanlegum böndum, þ.e. að það sé sama menning sem viðhaldi yfirráðum karla í samfélaginu og sem stuðlar að ofnýtingu náttúrunnar og umhverfisspjöllum stórfyrirtækja. Fyrirlestur hennar er öllum opinn án endurgjalds.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn dagana 9.-10. september nk. í Kópavogi. Landsfundur jafnréttisnefnda er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum.