Á vef Reykjavíkurborgar er hægt að nálgast nýútkomna áfangaskýrslu stýrihóps um kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð á vegum borgarinnar en innleiðingavinna á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg hófst árið 2010. Skýr stefna borgaryfirvalda og stuðningur við verkefnið hefur orðið til þess að skapast hefur dýrmæt þekking á nýjum vinnubrögðum og nýrri aðferðafræði. Áfangaskýrslan er mjög gott dæmi um hvernig sveitarfélög geta beitt kynjasjónarhorni á sína starfsemi á hinum ýmsu sviðum.
29.11.2012
Í tilefni 16 daga alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi hafa fulltrúar í mannréttindaráði og starfsfólk Reykjavíkurborgar tekið höndum saman og ætla að fjalla um kynbundið ofbeldi, hver með sínum hætti, á vef borgarinnar. Á hverjum degi á þessu tímabili mun birtast ljóð, lag, hugleiðing eða örsaga um efnið. Höfundar hafa valið sér myndskreyti til að vinna með.
27.11.2012
Alþjóðlegt sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi fer í hönd um helgina og stendur frá 25. nóvember til 10. desember. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur . Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Átakið í ár hefst með ljósagöngu Un Women 25. nóvember klukkan 19.00. Gengið verður frá Alþingishúsinu að Bíó Paradís en klukkan 20.00 verður svo kvikmyndin Tyrannosaur sýnd og allur ágóði miðasölu rennur til Un Women á Íslandi.
27.11.2012
Kynjakrónur: Handbók um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð er komin út. Bókin er samvinnuverkefni Jafnréttisstofu og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í henni eru kynntar aðferðir sem stuðlað geta að jafnrétti og betri nýtingu opinberra fjármuna. Bókin er ætluð ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum, félagasamtökum og fyrirtækjum.
22.11.2012
Fullt var út úr dyrum á morgunverðarfundi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem haldinn var á Grand hóteli í gær, þriðjudaginn 20. nóvember. Til fundarins var boðað af Velferðarráðuneytinu í samstarfi við Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð.
21.11.2012
Jafnréttisstofa heimsótti þrjú sveitarfélög á Austurlandi í síðustu viku, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Seyðisfjörð. Skipulag funda var með svipuðu sniði á öllum stöðum þar sem Jafnréttisstofa kynnti helstu skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum, jafnframt því sem ýmis verkefni Jafnréttisstofu voru kynnt. Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu og Arnfriður Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri sáu um fræðsluna.
20.11.2012
Árlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akranesi þann 14. september 2012. Landsfundir jafnrettisnefnda eru kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundir eru opnir fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga og fulltrúum þeirra nefnda sem fara með jafnréttismál, en einnig eru velkomnir á fundina pólitískir fulltrúar og starfmenn sveitarfélaganna.
Um fjörtíu fulltrúar hvaðanæva af landinu tóku þátt í fundinum á Akranesi og þóttu fyrirlestrar, umræður og vinnulotur í kjölfar þeirra mjög hagnýtar. Á fundinum voru ýmis málefni til umfjöllunar, s.s. jafnrétti á Íslandi með augum kvenna af erlendum uppruna, kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð hjá Reykjavíkurborg, gerð jafnréttis- og aðgerðaráætlana og samanburður á árangri stúlkna og drengja í grunnskólum.
16.11.2012
Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að leiðrétta kynbundinn launamun í ráðuneytinu en við jafnlaunaúttekt kom í ljós 2,5% óútskýrður launamunur meðal sérfræðinga ráðuneytisins. Ráðuneytið telur óviðunandi að konur og karlar njóti ekki sömu launa fyrir sömu störf og fagnar úttektinni sem gefur tækifæri til að leiðrétta þessa skekkju.
16.11.2012
Niðurstöður úr launakönnun SFR voru kynntar þann 7. september sl. Könnunin sem er unnin af Capacent í samvinnu við VR og Stéttarfélag Reykjavíkurborgar sýnir að innan VR og SFR hafa orðið litlar breytingar á kynbundnum launamun frá síðustu könnun. Launamunur, sem eingöngu er hægt að rekja til kynferðis þegar búið er að taka tillit til annarra áhrifaþátta, mælist nú 9,4% af heildarlaunum hjá VR og hefur lækkað lítillega frá fyrra ári. Hjá SFR mælist kynbundinn launamunur 12,1% og hefur lækkað úr 13% í fyrra, en hjá Stéttarfélagi Reykjavíkurborgar hefur kynbundinn launamunur af heildarlaunum hins vegar aukist úr 9% í fyrra í 11,8% nú.
16.11.2012
Miðvikudaginn 19. september mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindi á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri sem fjallar um tengsl karla við jafnréttismál. Í erindinu mun Tryggvi gera grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram, bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum, til þess að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál. Þá mun Tryggvi kynna stefnu stjórnvalda á sviðinu og þá vinnu sem nú á sér stað, m.a. á vegum starfshóps velferðarráðherra. Torgið hefst kl. 12.00 og er í stofu M102.
16.11.2012