Fréttir

Jafnréttisstofa á ferð um landið

Í haust mun starfsfólk Jafnréttisstofu ferðast um landið, kynna ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og ræða jafnrétti kynjanna við landsfólk. Til stendur að halda sex opna fundi. Fyrsti fundurinn verður í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, fimmtudaginn 4. september kl. 12:00.

Jafnréttisstofa færir Akureyrarbæ gjöf

Í tilefni afmælis Akureyrarbæjar mun Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu færa bænum leiðarlýsingu Kvennasögugöngu Jafnréttisstofu, Minjasafnsins á Akureyri og Zontakvenna á Akureyri sem farin var 19. júní síðastliðinn. Þessi fyrsta Kvennasöguganga á Akureyri tókst mjög vel og voru þátttakendur um 150. Gangan myndaði nýja tengingu við innbæinn og varpaði ljósi á líf kvenna sem bjuggu og störfuðu þar og höfðu margar hverjar mikil áhrif á líf bæjarbúa á sínum tíma.

Fyrirlestrar um jafnrétti kynjanna

Bandalag háskólamanna stendur fyrir tveimur fyrirlestrum um jafnréttismál í næsta mánuði. Fyrirlestrarnir eru hluti af fræðsludagskrá sem fræðslunefnd BHM býður félagsmönnum upp á í vetur. Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, miðlar af reynslu sinni í jafnréttismálum á fyrri fyrirlestrinum, en á þeim seinni verða nýju jafnréttislögin kynnt.

Neyðarkort fyrir konur sem sæta ofbeldi

Gefið hefur verið út neyðarkort ætlað konum í nánum samböndum sem sæta ofbeldi og þurfa að leita sér hjálpar. Að útgáfu kortsins stendur samráðsnefnd Jafnréttisstofu, félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en nefndin hefur með höndum að hrinda í framkvæmd áætlun um aðgerðir vegna ofbeldis gegn konum í nánum samböndum.

Lokaráðstefna Jafnréttiskennitölunnar 19. september

Lokaráðstefna verkefnisins um jafnréttiskennitöluna verður haldin þann 19. september næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunar er nýting mannauðs í stjórnun og æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja og er hún haldin í Salnum í Kópavogi þann 19. september næstkomandi. Aðalfyrirlesari verður Eleanor Tabi Haller-Jorden framkvæmdastjóri Catalyst í Evrópu, leiðandi fyrirtækis á sviði jafnréttis og viðskipta. Ráðstefnan er liður í afmælisdagskrá Háskólans á Bifröst á 90. ára afmælisári hans.

Ráðstefna um vændi á Norðurlöndunum - Skráningafrestur 22. ágúst

Ráðstefna um norræna rannsóknarverkefnið "Vændi á Norðurlöndunum" verður haldin 16. og 17. október 2008 í Stokkhólmi. Á ráðstefnunni verður reynt að svara ýmsum spurningum um útbreiðslu og birtingarmyndir vændis og mansals á Norðurlöndum. Einnig verður skoðað hvaða viðhorf fólk á Norðurlöndunum hefur til vændis, hvernig tekið er á vændi réttarfarslega séð og er einhver munur á félagslegum úrræðum á Norðurlöndunum hvað varðar vændi og mansal.

Segjum nei við ofbeldi - Nýtt átak á vegum UNIFEM á Íslandi

Undirskriftaátakið Segjum NEI við ofbeldi gegn konum var opnað á heimasíðu UNIFEM á Íslandi í dag. Utanríkisráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu áskorunina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að viðstöddum fjölmiðlum. Átakið er hvatning til ríkisstjórna heims að grípa til aðgerða til að binda endi á ofbeldi gegn konum. Allir Íslendingar eru hvattir til þess að skrifa undir.