Fréttir

Góðar heimtur á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga

Jafnréttisstofa hefur tekið á móti og samþykkt jafnréttisáætlanir hjá 54 af 74 sveitarfélögum landsins. Þetta eru heimtur upp á 73%, sem telst mjög góður árangur. Í samræmi við 12. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum  frá öllum sveitarfélögum í október 2015. Jafnréttisstofa fór yfir allar innsendar jafnréttisáætlanir og gerði athugasemdir við þær kom með  ábendingar eftir því sem átti við. Um mánaðamótin júní/júlí var verkefninu lokið af hálfu Jafnréttisstofu, en þá var ítrekað búið að hafa samband við þau sveitarfélög sem ekki voru búin að senda inn jafnréttisáætlanir til samþykktar. Jafnréttisstofa tekur að sjálfsögðu enn á móti jafnréttisáætlunum frá þeim sem ekki hafa skilað áætlun til samþykktar ennþá.

Takið daginn frá

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn á Akureyri föstudaginn 16. september n.k. Í tengslum við fundinn boðar Jafnréttisstofa til ráðstefnu í tilefni fjörutíu ára afmælis jafnréttislaga. Ráðstefnan, sem er öllum opin, fer fram fimmtudaginn 15. september.

Jafnréttismat á frumvörpum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að með nýju frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar, fylgir sérstakt jafnréttismat. Jafnréttismatið er unnið í samræmi við innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Samkvæmt áætluninni skal jafnréttismeta 10% frumvarpa sem lögð eru fram í ár og á hlutfallið að vera komið upp í 100% frumvarpa árið 2019.