Fréttir

Hátíðar- og nýárskveðjur

Starfsfólk Jafnréttisstofu óskar öllum landsmönnum gleðilegrar hátíðar og heillaríks komandi árs.

Aðgerðaráætlun Reykjavíkur gegn ofbeldi

Drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum er nú til kynningar innan borgarinnar. Verið er að gefa starfsfólki tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur að úrbótum til að fyrirbyggja ofbeldi. Þetta er fyrsta áætlun sveitarfélags gegn ofbeldi sem nær bæði til kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Akureyrarbær hefur þegar kynnt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldis gegn börnum. Reykjavíkurborg hefur einsett sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi; andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Þetta kemur fram í mannréttindastefnu borgarinnar og í Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla sem Reykjavíkurborg er aðili að. Aðgerðaráætlunin miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem borgarstarfsmenn hafa til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Áætlunin leggur áherslu á samstarf borgarstofnana og samstarf við ríkið og félaga- og grasrótarsamtök sem vinna gegn ofbeldi.

Karlar til ábyrgðar á norðurlandi

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011-2014 er kveðið á um að meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar, sem hefur staðið körlum á höfuðborgarsvæðinu til boða samfellt frá árinu 2006, verði nú einnig á boðstólum víðar um land. Akureyri og nágrenni verða fyrst til að njóta aukinnar þjónustu við karla sem vilja losna úr vítahring ofbeldisbeitingar og mun Kristján Már Magnússon sálfræðingur hafa umsjón með meðferðarúrræðinu þar.

Mannréttindakaffi í Eymundsson á Akureyri

Laugardagurinn 10. desember er alþjóðlegur dagur mannréttinda en á þeim degi árið 1948 var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt. Dagurinn er jafnframt lokadagur í alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.  Af því tilefni verður boðið upp á mannréttindadagskrá í Eymundsson kl. 13:00 þar sem  Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri lagadeildar HA mun ávarpa gesti,  Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við heilbrigðisvísindasvið HA flytur erindi, og Vigdís Grímsdóttir les valinn kafla úr bók sinni „Trúir þú á töfra“.  Einnig geta gestir í Eymundsson tekið þátt í alþjóðlegu bréfamaraþoni Amnesty International  með því að skrifa undir kort til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á staðnum.    Allir velkomnir Kaffi og piparkökur Á morgun fer einnig fram sala á armböndunum „Segðu frá“ til styrktar Aflinu.

Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál hefst föstudaginn 9. desember 2011

Fyrsti fundur í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál verður haldinn í Hörpunni í Reykjavík föstudaginn 9. desember klukkan 11.30 til 14.15. Tilefni þessa fyrsta fundar er alþjóðlegi mannréttindadagurinn, 10. desember, en Sameinuðu þjóðirnar hvetja aðildarlönd til að taka mannréttindamál til sérstakrar umfjöllunar þann dag. Á fyrsta fundinum verður fjallað um fyrirtöku hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi í Universal Periodic Review ferlinu og verður sérstaklega fjallað um þær athugasemdir sem íslenskum stjórnvöldum bárumst og ekki hefur verið tekin afstaða til (sjá drög að skýrslunni hér). Ennfremur verður fjallað um samning Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi en Ísland var eitt 11 ríkja sem fyrst skrifuðu undir samninginn í apríl sl., en hefur ekki fullgilt hann. Johanna Nelles, sérfræðingur frá Evrópuráðinu, sem hefur unnið að samningunum mun fjalla um samninginn, efni hans og mögulega framkvæmd.

Margir lögðu leið sína í safnaðarheimili Glerárkirkju

Hádegisstund með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Sigrúnu Sigurðardóttur þann 2. desember sl. tókst mjög vel en rúmlega 80 manns hlýddu á erindi Sigrúnar og lestur Guðrúnar Ebbu úr bók sinni Ekki líta undan.  

Hádegisstund í safnaðarheimili Glerárkirkju

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi verður boðið upp hádegisstund með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Sigrúnu Sigurðardóttur í safnaðarheimili Glerárkirkju föstudaginn 2. desember frá kl. 12-13:30. Sigrún mun kynna rannsókn sína á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og helstu afleiðingar þess og Guðrún Ebba mun lesa valin kafla úr bók sinni Ekki líta undan.  Boðið verður upp á fyrirspurnir og í lok stundarinnar mun Sr. Hildur Eir Bolladóttir flytja hugvekju.

Málþing um skýrslu starfshóps um námsárangur drengja

Rannsóknarstofa um jafnrétti, kyngervi og menntun (RannKyn) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands boðar til málþings um Skýrslu starfshóps um námsárangur drengja. Málþingið verður 9. desember 2011, kl. 14-16 í stofu H-201 Stakkahlíð, Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Málþingið er einkum ætlað áhugasömum kennurum í leik-, grunn- og framhaldsskólum og kennurum Menntavísindasviðs, en er öllum opið.

Kvikmyndasýningar í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi verður boðið upp á sýningar á myndinni „Pray the devel back to hell“. Fyrri sýning myndarinnar fer fram í Sambíóinu á Akureyri miðvikudaginn 30. nóvember kl.18 en síðari sýningin verður í BíóParadís í Reykjavík fimmtudaginn 8.desember kl. 20. Um er að ræða heimildamynd um baráttu kvenna fyrir friði í Líberíu en þar ríkti blóði drifin borgarastyrjöld í rúm tuttugu ár.  Myndin hefur hlotið einróma lof og fjölda viðurkenninga. Það þarf hugrekki og sterkan vilja til að hafa áhrif á samfélag þar sem ofbeldismenning hefur verið ríkjandi eins lengi og í Liberíu.  Tvær þeirra kvenna sem leiddu aðgerðirnar í Líberíu hlutu friðarverðlaun Nóbels 2011, þær Ellen Johnson Sirleaf og  Leymah Gbowee  fyrir baráttu þeirra fyrir öryggi kvenna og réttindum þeirra til að taka þátt í friðarviðræðum.

Vel heppnuð ráðstefna

Jafnréttisstofa hélt vel heppnaða ráðstefnu um kynjasamþættingu í opinberri stjórnsýslu í síðustu viku. Nú hefur stofan tekið saman erindin og eru glærurnar aðgengilegar hér á heimasíðunni.