Fréttir

Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs

Eygló Harðardóttir ráðherra jafnréttismála veitti í gær, 20. mars, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og Orkuveitu Reykjavíkur jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Viðurkenningar voru veittar í tveimur flokkum. Annarsvegar til fyrirtækis, sveitarfélags eða stofnunnar og hinsvegar til einstaklings, hóps eða félagasamtaka. Óvenju margar tilnefningar til jafnréttisviðurkenningarinnar bárust í ár og ljóst að víða í samfélaginu er unnið markvisst að auknu jafnrétti. Jafnréttisstofa óskar verðlaunahöfum til hamingju og vonar að verðlaunin verði öðrum hvatning. Við viðtöku verðlaunanna sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, að mikilvægt væri að stjórnendur stofnana og fyrirtækja hefðu  aðstöðu og tækifæri til að framkvæma breytingar. Ekki væri nóg að lýsa stuðningi við jafnrétti, stjórnendur þyrftu að vinna að því á markvissan hátt.

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn: Konur og karlar á Íslandi 2014

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2014 í samstarfi við við Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytið. Í bæklingnum er að finna samantekt á helstu tölum og hlut kvenna og karla á ýmsum sviðum samfélagsins. Í bæklingnum eru meðal annars upplýsingar um stöðu kynjanna á vinnumarkaði, í menntakerfinu og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn er einnig gefinn út á ensku. Hægt er að nálgast útgáfuna hér á heimasíðunni, á íslensku og ensku. Einnig er hægt að panta eintök með því að senda póst til Jafnréttisstofu.

Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs árið 2014

Eygló Harðardóttir húsnæðis- og félagsmálaráðherra mun afhenda jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs í Hannesarholti á morgun fimmtudaginn 20. mars kl. 16. Viðurkenningu geta þeir aðilar hlotið sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála. Í ár eru viðurkenningar veittar í tveimur flokkum. Ein til fyrirtækis, sveitarfélags eða stofnunnar og önnur til einstaklings, hóps eða félagasamtaka. Nánari upplýsingar veitir Bryndís Valdemarsdóttir

Þriðjungur evrópskra kvenna hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi

Þriðjungur kvenna í löndum Evrópusambandsins hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi eða hvoru tveggja. Þetta staðfestir rannsókn Evrópustofnunar grundvallarmannréttinda (FRA - The European Union Agency for Fundamental Rights), sem kynnt var í Brussel þann 6. mars sl.

Ályktun fundar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Á fjölmennum fundi sem Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa stóðu fyrir á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt: • Fundurinn skorar á á Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra að tryggja að lögum um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum sé framfylgt. • Fundurinn skorar á Sýslumanninn á Akureyri og Akureyrarbæ að taka upp verklag lögreglunnar á Suðurnesjum og félagsþjónustunnar í heimilisofbeldismálum. • Fundurinn hvetur alla karla til að láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og uppræta ofbeldi gegn konum sem viðgengst í íslensku samfélagi eins og annars staðar. Ofbeldi gegn konum á aldrei að líðast en það er ein hindrunin fyrir því að kynin standi jafnt að vígi í samfélaginu. Árangur næst ekki nema allir, karlar og konur, taki höndum saman.

8. mars Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna laugardaginn 8. mars verður boðið upp á spennandi viðburði í Reykjavík og á Akureyri. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér og taka þátt í viðburðum dagsins. 

Mikið fjör á Öskudegi

Krakkar á Akureyri taka öskudaginn jafnan snemma og á Jafnréttisstofu mátti sjá sérkennilega klædd börn syngjandi og trallandi fram eftir morgni. Krakkarnir voru himinlifandi með að fá epli að launum fyrir sönginn. Hér að neðan gefur að líta myndir af nokkrum krökkum sem lögðu leið sína til okkar.  Jafnréttisstofa þakkar kærlega fyrir sig!!