Fréttir

Styrkur til ritunar meistararitgerðar

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014. Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.

Ráðherra í heimsókn á Jafnréttisstofu

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti sér starfsemi Jafnréttisstofu á Akureyri í vikunni og ræddi við starfsfólk um áherslur í jafnréttismálum og helstu verkefni stofnunarinnar. Í för með ráðherranum voru Matthías Páll Imsland, aðstoðarmaður ráðherra, Höskuldur Þórhallsson, þingmaður, Ingi Valur Jóhannsson, Rán Ingvarsdóttir og Margrét Erlendsdóttir.

NIKK – Norræna þekkingar- og upplýsingamiðstöðin um jafnréttismál auglýsir styrki

Norræna þekkingar- og upplýsingamiðstöðin um jafnréttismál, NIKK, hefur auglýst styrki vegna verkefna á sviði jafnréttismála. Umsóknarfrestur er til og með 15. september næstkomandi. Opnað verður fyrir umsóknir þann 15 ágúst.

Kyn, velferð og leiðir úr kreppum

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafardeild HÍ í samstarfi við MARK og Jafnréttisstofu bjóða upp á málstofu þann 20. ágúst n.k. í Lögbergi (101).  Í málstofunni mun Ann Shola Orloff, prófessor í félagsfræði við Northwestern Háskólann í Chicago flytja fyrirlestur sinn: Kyn, velferð og leiðir úr kreppum. Málstofan hefst kl. 12:10 og er öllum opin.