Fréttir

Jafnréttisstofa óskar eftir sérfræðingi

Hlutverk og verkefni Jafnréttisstofu hafa aukist með gildistöku nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þess vegna óskar Jafnréttisstofa eftir að ráða sérfræðing í fullt starf. Umsóknarfrestur er til 15. apríl. Viðkomandi þarf að geta hafið störf eigi síðar en 1. júní.

Karlakvöld Femínistafélags Íslands - Andfemínismi

Í kvöld heldur Karlahópur Femínistafélags Íslands Karlakvöld undir yfirskriftinni Andfemínismi - er í lagi að hata femínista? Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn á Grand Rokk. Fundurinn er öllum opinn.

Staða kynjanna á Íslandi 2008

Í síðasta mánuði gaf Jafnréttisstofa í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneyti út bæklinginn Women and Men in Iceland 2008. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum. Bæklingurinn er á ensku og er meðal annars ætlaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi erlendis.

Aldarfjórðungur liðinn frá stofnun Kvennalistans

Í dag eru liðin 25 ár frá því að Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð. Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum í Alþingiskosningum vorið 1983 og fékk 5,5% atkvæða og þrjár konur kjörnar á þing. Í þeim kosningum jókst hlutur kvenna á þingi svo um munaði og þingkonum fjölgaði úr þremur í níu.

Kynfræðifélag Íslands - Ráðstefna

Í ár mun Kynfræðifélag Íslands halda árlega ráðstefnu samtaka norrænna kynfræðifélaga. Ráðstefnan verður haldin dagana 4. - 7. september 2008 á Grand Hótel í Reykjavík. Yfirskrift ráðstefnunnar er “Training and Research in Sexology”.  Ráðstefnan fer fram á ensku.

FJÖLBREYTNI - reynsla kanadískra fyrirtækja

Kanadíska sendiráðið á Íslandi í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið, Háskóla Íslands – Stofnun stjórnsýslufræða, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Alþjóðahúsið, býður til opins málþings um reynslu og ávinning kanadískra fyrirtækja af því að hafa fjölbreytni (diversity) starfsmanna í fyrirrúmi. En Kanada þykir standa framarlega á þessu sviði og er m.a. með sérstakt ráðuneyti um fjölbreytni og fjölmenningu. Markmið málþingsins er að greina hvernig fjölbreytni starfsfólks, getur verið ávinningur fyrirtækja.

Konur um heim allan: Samstaða og samvinna

UNIFEM efnir til opins fundar laugardaginn 8. mars kl. 12:00-13:30 í stofu 105 Háskólatorgi Háskóla Íslands. Utanríkisráðherra Líberíu, Olubanke King Akerele, verður heiðursgestur á fundinum sem Háskóli Íslands býður til í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Auk King Akerele munu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Joanne Sandler, starfandi aðalframkvæmdastjóri UNIFEM í New York og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafa framsögu.  Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK við HÍ og Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki og formaður undirbúningsnefndar um stofnun alþjóðlegs jafnréttisskóla, stjórna umræðum.

Viðburðir í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í því tilefni verða ýmsir viðburðir á dagskrá hér á landi. Þar á meðal má nefna ráðstefnu um launajafnrétti, hádegisrabb um nýju jafnréttislögin og ráðstefnu á Akureyri um stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Einnig verða Zontakonur með söfnun um land allt fyrir Stígamót.

Bleik orka á Akureyri - Ráðstefna

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars, verður ráðstefna um stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Ráðstefnan verður í Ketilhúsinu á Akureyri og stendur frá 10 til 16. Um er að ræða fjölbreytta dagskrá þar sem staða jafnréttismála verður skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Á meðal fyrirlesara eru Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Ráðstefnan er öllum opin.

Fiðrildaganga Unifem og BAS - gegn kynbundnu ofbeldi

Í tilefni af Fiðrildaviku efna BAS og UNIFEM til FIÐRILDAGÖNGU til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum. Gengið verður miðvikudaginn 5. mars kl. 20:00 frá húsakynnum UNIFEM á mótum Frakkastígs og Laugavegs, niður á Austurvöll. Fyrir göngunni fara 12 þjóðþekktir einstaklingar í góðum takti með kvennakórnum Léttsveit Reykjavíkur. Göngunni lýkur svo með uppákomu á Austurvelli.