Fréttir

Forskot með fjölbreytileika - málþing um jafnréttismál

Föstudaginn 25. apríl standa jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir málþingi um jafnrétti á breiðum grundvelli, með yfirskriftinni „Forskot með fjölbreytileika“. Fjallað verður um jafnréttismál frá ýmsum sjónarhornum, og er markmiðið að skapa samræðu milli fræðafólks í báðum skólum, nemenda, stjórnsýslu, og annarra sem áhuga hafa á jafnréttismálum. Það er stefna Háskóla Íslands að vera ávallt í fararbroddi í jafnréttismálum og liður í því er að skapa og viðhalda umræðu um kynja- og jafnréttismál með margvíslegum hætti.

Menntastefna og menntun drengja og stúlkna

Opinn fyrirlestur verður haldinn á vegum kennaradeildar Háskólans á Akureyri í dag 21. apríl kl. 16:30 í stofu 21, 2. hæð í Þingvallastræti 23. Fyrirlesari er Bob Lingard, prófessor við Edinborgarháskóla. Í fyrirlestrinum ræðir Lingard alþjóðlega strauma í orðræðu um menntun, einkum þá hugmynd að menntun drengja hafi farið hrakandi og hvaða áhrif þetta hefur á réttlátt skólastarf fyrir drengi sem stúlkur. Lingard styður í erindi sínu við tilviksrannsókn í Ástralíu og ræðir meðal annars skýrslur frá áströlsku ríkisstjórninni.

Íslenskar konur og alþjóðastofnanir

Edda Jónsdóttir, sérfræðingur í mannréttindum heldur erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum fimmtudaginn 17. apríl kl. 12:00 í Háskólabíói, sal 4 – kjallari. Edda flytur erindi um íslenskar konur og alþjóðastofnanir og byggir erindið á lokaritgerð sinni um þátttöku Íslands í mannréttindatengdu starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Ný jafnréttislög – hvar erum við stödd?

Á Miðvikudaginn 16. apríl verður haldið Jafnréttistorg Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri og verða nýju jafnréttislögin til umfjöllunar. Kristín Ástgeirsdóttir,framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, mun fjalla um hvernig jafnréttislögin hafa þróast á Íslandi frá því að fyrstu lögin voru sett árið 1976. Mun hún meðal annars skoða hvaða breytingar hafa átt sér stað á lögunum á þessum árum. Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur Jafnréttisstofu, mun kynna nýju jafnréttislögin, fjalla um helstu breytingar sem þeim fylgja og ræða hvaða áhrif þau geta haft á framtíð jafnréttismála.

Konur og karlar á Íslandi 2008

Í gær gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2008, í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn er hugsaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi og hefur hann einnig verið gefinn út á ensku.

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum

Samband íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa hafa tekið höndum saman um að láta þýða Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Sáttmálinn verður kynntur fyrir sveitarfélögum í byrjun maí og vonast er til að sem flest sveitarfélög í landinu undirriti hann á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem haldinn verður í Mosfellsbæ 18. og 19. september næstkomandi.