Fréttir

Góður og gagnlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2013

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram á Hvolsvelli 27. september sl. Dagskrá fundarins var mjög áhugaverð og fjölbreytt en 37 fulltrúar sveitarfélaga tóku þátt í landsfundinum að þessu sinni. Almenn ánægja var með fundinn og mikil samstaða um brýnustu mál framundan. Rík áhersla var meðal þátttakenda á mikilvægi þess að jafnréttisfulltrúar væru ráðnir til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga en á síðustu árum hafa jafnréttismálin gjarnan verið færð til mannauðs- og félagsmálastjóra og vilja þau því týnast vegna anna og álags í þeim störfum. Sú tillaga kom fram að  starfshlutfall  jafnréttisfulltrúa verði í beinu samræmi við íbúafjölda sveitarfélaga.  Fulltrúar sveitarfélaga fjölluðu einnig um mikilvægi sveigjanleika á vinnustöðum til að stuðla að aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og mikilvægi þess að í sveitarstjórnum sitji bæði konur og karlar sem endurspegla það samfélag sem þau starfa fyrir.

Málþing um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki

Þann 3. október var haldið fjölmennt málþing um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki. Að málþinginu stóðu: Stígamót, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, Landssamtökin Þroskahjálp, NPA miðstöðin, Öryrkjabandalag Íslands, Kvennaathvarfið, Reykjavíkurborg, Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Þroskaþjálfafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Ás styrktarfélag. Þessir aðilar sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í kjölfar málþingsins auk þess sem glærur af málþinginu eru nú aðgengilegar. 

Félagsvísindatorg í Háskólanum á Akureyri

Miðvikudaginn 2. október kl. 12.00-13.00 flytur Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og fyrrverandi þingkona Kvennalistans erindið „Öll mál eru kvennamál“ - Kvennalistinn og áhrif hans 1983-1999 á félagsvísindatorgi í stofu M102.