Góður og gagnlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2013
Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram á Hvolsvelli 27. september sl. Dagskrá fundarins var mjög áhugaverð og fjölbreytt en 37 fulltrúar sveitarfélaga tóku þátt í landsfundinum að þessu sinni.
Almenn ánægja var með fundinn og mikil samstaða um brýnustu mál framundan. Rík áhersla var meðal þátttakenda á mikilvægi þess að jafnréttisfulltrúar væru ráðnir til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga en á síðustu árum hafa jafnréttismálin gjarnan verið færð til mannauðs- og félagsmálastjóra og vilja þau því týnast vegna anna og álags í þeim störfum. Sú tillaga kom fram að starfshlutfall jafnréttisfulltrúa verði í beinu samræmi við íbúafjölda sveitarfélaga. Fulltrúar sveitarfélaga fjölluðu einnig um mikilvægi sveigjanleika á vinnustöðum til að stuðla að aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og mikilvægi þess að í sveitarstjórnum sitji bæði konur og karlar sem endurspegla það samfélag sem þau starfa fyrir.
08.10.2013