Fréttir

Sjónvarpsþáttaröðin HVERS VEGNA EKKI?!

Sjónvarpsþáttaröðin HVERS VEGNA EKKI?! - frábærir framhaldsþættir sem slegið hafa í gegn víða í Evrópu og hafa hlotið fjölda viðurkenninga. Hvers vegna ekki?! fjallar um ævintýralegt ferðalag Önnu Sooväli frá því að vera bekkjarlúðinn í að verða hin ofursvala rappstjarna NoJik. Auk þess fáum við að fylgjast með fjölskyldu- og félagslífi Önnu, sem er vægast sagt viðburðaríkt. Hver þáttur er u.þ.b. 28 mínútur og þættirnir eru 10 talsins og eru textaðir á íslensku.

Jafnréttisstofa býður upp á fjarnámskeið

Jafnréttisstofa í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri býður nú upp á námskeið um ýmsa fleti jafnréttisstarfs í fjarnámi.

Baráttan heldur áfram! Kjarajafnrétti og ný jafnréttislög

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars bjóða ASÍ, BHM, BSRB, Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands til hádegisverðarfundar 5. mars kl. 12–13. Yfirskrift fundarins er Baráttan heldur áfram! Kjarajafnrétti og ný jafnréttislög.

Skýrsla forsætisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2018 – 2019

Skýrsla forsætisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2018 – 2019 hefur verið birt á vef Stjórnarráðsins í tilefni Jafnréttisþings fór fram í Hörpu 20. febrúar. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þó að atvinnuþátttaka kvenna sé með því mesta sem þekkist í Evrópu sé kynbundin verkaskipting enn einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað, við umönnun og innan heimila. Konur eru líklegri en karlar til að sinna hlutastörfum en tæplega 27% þeirra eru í hlutastarfi samanborið við 6,5% karla. Karlar vinna einnig lengri vinnudag og líklegra er að vinnutími þeirra sé óhefðbundinn en vinnutími kvenna. Þá kemur fram að konur eru líklegri til að axla ábyrgð á umönnun gagnvart skyldmennum en karlar.

Jafnréttissjóður Íslands auglýsir eftir umsóknum

Rannís lýsir nú eftir umsóknum um styrki úr Jafnréttissjóði Íslands. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn og er umsóknarfrestur til 3. apríl 2020, kl. 16:00

Streymi frá Jafnréttisþingi í Hörpu 20.02.2020

Jafnréttisþing verður haldið í Hörpu í dag, fimmtudaginn 20. febrúar og hefst kl. 10.00. Hægt er að horfa á streymi frá þinginu hér fyrir neðan.

Norrænt málþing um fæðingarorlof feðra

Í síðustu viku var haldið málþing í Færeyjum undir yfirskriftinni „Hvussu hava pápar í Norðurlondum tað?“ sem á íslensku væri „Hvernig hafa pabbar á Norðurlöndum það?“ Á málþinginu voru kynntar niðurstöður rannsóknarinnar „State of Nordic Fathers“. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 90 prósent feðra á Norðurlöndum vilja taka ríkan þátt í umönnun barna sinna og að eyrnamerkt feðraorlof er öflug leið til að breyta hefðbundnum venjum s.s. verkaskiptingu kynja á heimilum og viðhorfi foreldra til hlutverks feðra og karlmanna almennt.

Hefur þú verið beitt ofbeldi í nánu sambandi?

Ert þú kona sem hefur verið beitt ofbeldi í nánu sambandi? Vilt þú taka þátt í rannsókn á því hvernig konur leita sér hjálpar, vinna úr og eflast eftir ofbeldi í nánu sambandi? Skilyrði fyrir þátttöku er að vera kona, 18 ára eða eldri, hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi og a.m.k. eitt ár verður að hafa liðið frá því að ofbeldissambandinu lauk.

Jafnréttisþing haldið í Hörpu 20.02.2020

Jafnréttisþing verður haldið í Hörpu fimmtudaginn 20. febrúar 2020 undir yfirskriftinni Jafnrétti í breyttum heimi: Kyn, loftslag og framtíðin. Á þinginu verður fjallað um samspil jafnréttis- og umhverfismála í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstaklega verður litið til framtíðaráskorana í tengslum við tæknibreytingar, loftslagsbreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti og velt upp hvaða áhrif þessir þættir kunna að hafa á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi.

Sjö mál til kærunefndar jafnréttismála 2019

Kærunefnd jafnréttismála bárust á árinu 2019 sjö mál. Í fyrsta sinn reyndi á lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Aðrir úrskurðir vörðuðu lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og snerust um hæfnismat vegna ráðninga í störf.