Fréttir

Kvennasöguganga um innbæinn á Akureyri

Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 94 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Í tilefni dagsins verður boðið upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna.

Ráðstefna evrópskra kvenlögfræðinga 3.-4. júlí

Árleg ráðstefna evrópskra kvenlögfræðinga (EWLA) verður haldin í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík 3. og 4. júlí næstkomandi.Þema ráðstefnunnar í ár er Mannréttindi og fjármálamarkaðir og aðalfyrirlesari er Eva Joly norsk/franski dómarinn sem íslensk stjórnvöld hafa fengið sem ráðgjafa.

Norræn ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum

Í haust verður haldin hér á landi ráðstefna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttisstarf í skólum. Ráðstefnan er samstarfsverkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins og verður haldin dagana 21. og 22. september á Grand Hótel. Á ráðstefnunni verða fyrirmyndarverkefni frá öllum Norðurlöndunum kynnt og farið yfir stöðu mála í Evrópu á svið jafnréttisstarfs í skólum. Ráðstefnan hefst að kvöldi 21. september, hún fer fram á skandinavísku og verður túlkuð.

Teikni- og ljóðasamkeppni

Jafnréttisstofa og Eymundsson stóðu fyrir teikni- og ljóðasamkeppni á vordögum og var þátttaka mjög góð. 

Nýr úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað í máli gegn Landsspítala - Háskólasjúkrahúsi, en kærandi var kona sem sótti um stöðu sérfræðilæknis. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að ræða.

Fylgjum hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni!

Þann 9. júní nk. kynna Mannréttindaskrifstofa Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til mismununar á Íslandi og ýta átaki gegn mismunun Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni! formlega úr vör. Kynningin fer fram í Hringborðsstofu, Þjóðmenningarhúsi, kl. 14. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, tekur til máls ásamt fulltrúum Mannréttindaskrifstofu Íslands og Capacent Gallup.

Ný barnabók ætluð til jafnréttisfræðslu gefin út

Jafnréttisstofa og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa gefið út barnabók í tengslum við þróunarverkefni um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum sem ætlað er að fræða ung börn um jafnréttismál. Þróunarsjóður námsgagna styrkti útgáfu bókarinnar sem er gefin út í tilefni af degi barnsins 24. maí. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, afhenti fyrstu eintök bókarinnar í leikskólanum Múlaborg og las kafla úr henni fyrir börnin.

Námsstefna um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum

Efnt verður til námsstefnu á vegum þróunarverkefnisins um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum þriðjudaginn 26. maí í Salnum í Kópavogi kl. 13:30. Á námsstefnunni verða kynnt tíu verkefni sem nýst geta til jafnréttisstarfs í skólum.

Alþjóðleg ráðstefna um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi

Utanríkisráðuneytið í samvinnu við Háskóla Íslands stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi dagana 19.-20. júní 2009. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er einn mikilvægasti hluti ályktunarinnar, þ.e. hvernig tryggja megi að konur taki með beinum hætti þátt í formlegum og óformlegum friðarferlum, þ.á.m. friðarumleitunum, friðarsamningum og friðaruppbyggingu. Á ráðstefnunni verður kannað hvaða leiðir eru færar fyrir stjórnvöld, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök til að efla þátttöku og eignarhald kvenna á friðarferlum.

Stjórnendur ráðuneyta á námskeiði um kynjasamþættingu

Um fjörutíu stjórnendur og sérfræðingar ráðuneytanna sitja námskeið í kynjasamþættingu á vegum Jafnréttisstofu, sem haldið er á Hótel Sögu í dag og á morgun. Námskeiðið er hluti af Samstíga, verkefni Jafnréttisstofu sem er styrkt af Evrópusambandinu.