Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við HÍ og Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við HA standa fyrir ráðstefnu og fræðsludegi um kynbundið ofbeldi. Sjónum verður beint að kynbundnu ofbeldi sem alvarlegu heilbrigðisvandamáli sem mikilvægt er að vinna bug á. Ráðstefnan fer fram í Öskju í Háskóla Íslands þann 1. júní nk.
27.05.2011
Norrænu öndvegissetrin EDDA, NORDWEL og REASSESS blása til alþjóðlegrar ráðstefnu í Háskóla Íslands 2.3. júní 2011 undir nafninu Kreppa og endurnýjun: velferðarríki, lýðræði og jafnrétti á erfiðum tímum. Hrun fjármálastofnana árið 2008 og efnahagskreppan sem sigldi í kjölfarið hafa haft gríðarleg áhrif á lífskjör almennings og stjórnmál Evrópu allt frá Grikklandi til Íslands. Kreppan hefur lagt miklar byrðar á velferðarkerfið sem þarf í senn að mæta auknum kröfum og glíma við vaxandi fjárhagserfiðleika. Í mörgum löndum hefur kreppan þrengt að félagslegum og efnahagslegum réttindum almennings og orsakað stjórnmálaólgu þar sem tekist er á um lögmæti valdhafa, stjórnarhætti og ábyrgð. Á ráðstefnunni munu fræðimenn úr ýmsum greinum hug- og félagsvísinda hvaðanæva úr heiminum ræða um efnahagskreppuna og verða áhrif hennar á lýðræði, jafnrétti, félagslegt réttlæti og velferðarríkið í brennidepli. Fyrri efnahagskreppur og áhrif þeirra á lífskjör og velferðarkerfi verða einnig til umfjöllunar.
26.05.2011
Alþingi hefur nú samþykkt framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára á grundvelli 11. gr. jafnréttislaga. Þetta er fimmta framkvæmdaáætlunin um aðgerðir til að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi. Áætlunin skilgreinir stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum og í henni er að þessu sinni 43 verkefni sem eiga að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynja.
24.05.2011
Í tilefni af útgáfu bókarinnar Mannréttindi í þrengingum: Efnahagsleg og félagsleg réttindi í kreppunni eftir Aðalheiði Ámundadóttur og Rachael Lorna Johnstone er boðið upp á bókarkynningu og málstofu sem haldnar verða í Háskólanum á Akureyri (stofu N102), föstudaginn 20. maí, frá kl. 12:00-14:30.
16.05.2011
Ísland var í gær á meðal fyrstu 13 aðildarríkja Evrópuráðsins til að undirrita samning um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að samningurinn er fyrsti bindandi alþjóðasamningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.
12.05.2011
Utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Alþjóðlegan jafnréttisskóla HÍ (GEST) og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ), kynnir skýrslu FAO um fæðumál, landbúnað og stöðu kvenna. Fundurinn fer fram mánudaginn 16. maí frá kl: 14 til 16 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, Suðurgötu 41.
11.05.2011
Dagana 4.-6. maí voru dr. Diane Elson og dr. Sue Himmelweit staddar á landinu í boði Jafnréttisstofu. Á meðan á dvöl þeirra stóð fluttu þær erindi á ráðstefnu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð og héldu námskeið fyrir fólk sem starfar að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar. Auk þess hittu þær fjárlaganefnd Alþingis, félags- og tryggingarmálanefnd Alþingis, ráðuneytisstjóra, starfsfólk velferðarráðuneytis og verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð.
10.05.2011
Fjármálaráðherra lagði fram og kynnti á ríkisstjórnarfundi þann 27. apríl þriggja ára áætlun um áframhaldandi innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Áætlunin er unnin af verkefnisstjórn í kynjaðri hagstjórn sem skipuð var af fjármálaráðherra í apríl 2009.
28.04.2011
Jafnréttisstofa býður til ráðstefnu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð miðvikudaginn 4. maí kl. 13:00 á Radisson Blu Hótel Sögu. Ráðstefnan ber yfirskriftina Bætt hagstjórn Betra samfélag. Aðal fyrirlesarar ráðstefnunnar verða Dr. Diane Elson og Dr. Susan Himmelweit sem eru helstu sérfræðingar Breta í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð og hafa meðal annars starfað með hópi sérfræðinga sem hafa það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti kynja með því að leggja mat á efnahagsstefnur og áætlanagerð. Á ráðstefnunni verða auk þess kynnt tvö íslensk tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð.
28.04.2011
Alþjóðaráðstefna Félags kvenna í atvinnurekstri í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands fer fram á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 13. maí. Ráðstefnunni er ætlað að ýta undir umræðu um kynjahlutföll í stjórnum, en lög um kynjakvóta taka gildi á Íslandi haustið 2013.
27.04.2011