Fréttir

Kvennafrí 2010

Skotturnar eru nýstofnuð samtök um kvennafrídaginn 2010. Í dag þann, 27. apríl bjóða Skotturnar til kynningarfundar í tilefni þess að boðað verður til kvennafrí 24-25 október. Í ár eru 35 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum og að því tilefni verður boðað til kvennafrís, alþjóðlegrar ráðstefnu og annarra viðburða. Kynningarfundurinn verður haldinn kl. 17:00 að Hallveigarstöðum Túngötu 14 Reykjavík og eru opinn öllum áhugasömum.

Jafnréttisfræðsla skilar árangri

Jafnréttisstofa, félags- og tryggingamálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Akureyrarbær, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Hafnarfjörður unnu síðasta skólaár að þróunarverkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttisfræðslu og jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum landsins. Verkefnið var tvíþætt. Heimasíða www.jafnrettiiskolum.is þar sem nálgast má efni tengt jafnréttisfræðslu í skólum og jafnréttisverkefni sem unnin voru í fimm leikskólum og fimm grunnskólum. Verkefnin eru aðgengileg á heimasíðunni en auk þess eru kennarar tilbúnir til að koma í skólaheimsóknir og kynna verkefnin sín.

Góð þátttaka á ráðstefnu um kynbundið ofbeldi

Yfir 100 manns sóttu ráðstefnu um kynbundið ofbeldi sem haldin var síðastliðinn föstudag á Akureyri af Jafnréttisstofu og Háskólanum á Akureyri. Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt og fræðandi og gáfu greinargóða mynd af afleiðingum kynbundins ofbeldis og hlutverki yfirvalda, stofnana, sérfræðinga og almennings þegar um kynbundið ofbeldi er að ræða.

Af hverju gengur þetta svona hægt? Konur, kosningar og fjölmiðlar

Ekki er deilt um mikilvægi þess að jafna völd og áhrif kvenna og karla í samfélaginu. Það á ekki síst við á sviði stjórnmála og fjölmiðla. Nýleg rannsókn Önnu Lilju Þórisdóttur, MA í blaða- og fréttamennsku, sýnir mikla kynjaskekkju í stjórnmálaumfjöllun íslenskra dagblaða mánuðinn fyrir Alþingiskosningar 2009. Karlar í framboði fengu talsvert meiri umfjöllun en konur og voru nær einráðir sem álitsgjafar í aðdraganda kosninganna. Þó voru konur jafn virkar og karlar við greinaskrif í dagblöðum. Á málþinginu verður spurt hverju þessi kynjaskekkja í fjölmiðlum sæti og hvernig megi ráða bót á henni.

Vigdís Finnbogadóttir áttræð

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fagnar áttræðisafmæli sínu í dag. Vigdís er og hefur verið konum frábær fyrirmynd til góðra verka, jafnt innanlands sem utan. Jafnréttisstofa óskar Vigdísi innilega til hamingju með daginn.

Þögul Þjáning

Þann 16. apríl n.k. hefur verið boðað til ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri um kynbundið ofbeldi. Ráðstefnan ber yfirskriftina Þögul þjáning og er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri. Ráðstefnan sem er öllum opin er kjörinn vettvangur fyrir fagstéttir og alla þá sem vilja leggja sitt að mörkum til að vinna gegn og uppræta kynbundið ofbeldi.

Af konum og börnum í Zimbabve og Tógó

Magnfríður Júlíusdóttir ræðir um kvennastýrð heimili í Zimbabve og Alda Lóa Leifsdóttir ræðir um aðstæður ungs fólks í Tógó og starfsemi Sóleyjar og félaga í þágu heimilis systur Victorine á UNIFEM-umræðum, laugardaginn 10. apríl kl. 13:00 í húsnæði Miðstöðvar SÞ að Laugavegi 42

Kynjuð kreppa

Fimmtudaginn 8. apríl heldur Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, fyrirlestur er nefnist „Kynjuð kreppa – karlar og konur í ljósi hagfræðilegrar greiningar“. Í erindi sínu skoðar Katrín hvort fjármálakreppan hafi mismunandi áhrif á karla og konur og við hverju má búast á næstu misserum. Sem dæmi má nefna að atvinnuleysi karla jókst mun hraðar en kvenna á fyrstu mánuðum kreppunnar, en ekki er ólíklegt að atvinnuleysi kvenna muni aukast á næstunni. Þá veltir hún fyrir sér hvort rekja megi upphaf kreppunnar til mismunandi áhættuhegðunar kvenna og karla.

Konum fjölgar í sendiherrastétt á Norðurlöndum

Kynjahlutföll hafa batnað í æðstu embættum utanríkisþjónustu Norðurlanda. Sífellt fleiri konur verða sendiherrar og ryðja þar með braut kynsystra sinna í þessu hefðbundna karlavígi. Þetta kemur fram í viðamiklu norrænu rannsóknaverkefni um kyn og völd í stjórnmálum og atvinnulífi. Verið er að kynna lokaskýrslu verkefnisins.

Áhrif femínisma á íslenska utanríkisstefnu

Fimmtudaginn 25. mars heldur Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur og aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fyrirlestur er nefnist “Áhrif femínisma á íslenska utanríkisstefnu”. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.25.