Fréttir

Kvenfélagasamband Íslands fagnar 80 ára afmæli

Kvenfélagasamband Íslands fagnar 80 ára afmæli sínu í dag 1. febrúar. Félagið var stofnað árið 1930 sem sameiningar- og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu sem þá þegar voru orðin fjölmörg.

Virkjum karla og konur

Miðvikudaginn 10. febrúar 2010 efna Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Leiðtoga-Auður, iðnaðarráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Creditinfo til tímamótafundar á Hótel Nordica. Þar verður greint frá því hvernig viðskiptalífið hyggst fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Fundurinn er haldinn til að fylgja eftir samstarfssamningi SA, FKA og VÍ sem undirritaður var 15. maí 2009 um að fjölga konum í forystusveit íslensk atvinnulífs til loka ársins 2013 þannig að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi skrifuðu undir samninginn og veita honum stuðning sinn.

Útvarpsþáttaröð um konur og sveitarstjórnarmál

Í kjölfar þingsályktunartillögu síðastliðið vor, þar sem Jafnréttisstofu var falið að stuðla að aðgerðum til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum voru gerðir sex útvarpsþættir um stöðu kvenna á sveitarstjórnarstiginu. 

Kynning á greinargerð starfshóps um aukinn hlut kvenna

Miðvikudaginn 20. janúar kl. 12 í stofu L201 mun Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindið Endurspeglar þín sveitarstjórn hlutföll kynjanna í samfélaginu? Eflum lýðræðið - Konur í sveitarstjórn.

Styrkir til atvinnumála kvenna

Félags- og tryggingamálaráðuneyti auglýsir styrki til atvinnumála kvenna vegna ársins 2010

Eflum lýðræðið - Konur í sveitarstjórn

Jafnréttisstofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafa gefið út bæklinginn Eflum LÝÐRÆÐIÐ - KONUR í sveitarstjórn sem ætlað er að hvetja konur til að bjóða sig fram til sveitarstjórnarstarfa.

Kynbundin valdakerfi í íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi

Föstudaginn 15. janúar verður haldið málþing um kyn og völd íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), Jafnréttisstofu og EDDU – öndvegisseturs. Á málþinginu verða kynntar niðurstöður íslenska hluta samnorræna rannsóknaverkefnisins Kyn og völd á Norðurlöndum. Verkefnið var unnið af norrænu kvenna- og kynjarannsóknastofnuninni NIKK að ósk Norrænu ráðherranefndarinnar. Umsjón með íslenskum hluta rannsóknarinnar hafði RIKK. Málþingið fer fram á Háskólatorgi Háskóla Íslands, stofu 102, kl. 14.30-16.30.

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gefinn út á íslensku

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð 30 ára þann 18. desember síðastliðinn. Í tilefni þess hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands gefið út nýtt fræðslurit um Kvennasáttmálann, í samstarfi við Jafnréttisstofu, félags- og tryggingamálaráðuneyti, UNIFEM á Íslandi og utanríkisráðuneyti. Með útgáfu bókar um Kvennasáttmálann er ætlunin að stuðla að aukinni þekkingu á réttindum kvenna og þar með stuðla að samfélagi þar sem konur njóta jafnréttis, mannhelgi, borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda óttaleysis um líf og afkomu. 

Jafnréttisstofa gefur út dagatal

Jafnréttisstofa gefur út dagatal í ár í tilefni þess að í haust eru liðin 15 ár frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Þar var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun í málefnum kvenna – Pekingáætlunin – sem nær yfir tólf málaflokka, allt frá fátækt kvenna og stöðu þeirra á átakasvæðum til menntunar, heilsu og aukinna valda.

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 30 ára í dag

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (CEDAW), um afnám allrar mismununar gegn konum, er 30 ára í dag 18. desember.