Fréttir

Jafnrétti í skólastarfi

Rúmlega hundrað manns sóttu árlega vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri sem haldin var laugardaginn 1. apríl sl. Þema ráðstefnunnar, sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu, var jafnrétti í skólastarfi en jafnrétti er einn af grunnþáttum íslenskrar menntastefnu.

Jafnrétti í skólastarfi

Vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verður haldin laugardaginn 1. apríl 2017 í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi og er efni hennar ætlað að höfða til allra skólastiga. Aðalfyrirlesarar verða Dr. Guðný Guðbjörnsdóttir og  Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, en þau eru bæði prófessorar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Einnig munu nemendur við Verkmenntaskólann á Akureyri fjalla um upplifun sína og reynslu af kynjafræðiáfanga í framhaldsskóla. Auk aðalfyrirlestra verður boðið upp á 23 málstofuerindi og/eða smiðjur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að jafnrétti í skólastarfi í víðum skilningi. 

Engin kona lokið sveinsprófi í stálsmíði

Ágústa Sveinsdóttir og Ólafur Sveinn Jóhannesson starfsmenn Tækniskóla Íslands heimsóttu Akureyri í gær og kynntu verkefnið #Kvennastarf á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri. Í máli þeirra kom fram að 32.641 karlar hafa lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein á Íslandi eða 84%. Konur sem lokið hafa sama prófi eru 5.151 eða 16%. Einungis 4 konur hafa lokið sveinsprófi í pípulögnum og enn í dag hefur engin kona lokið sveinspróf í stálsmíði. Frekari upplýsingar og áhugaverð myndbönd sem taka á kynbundnu náms- og starfsval má finna á slóðinni www.kvennastarf.is

Alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti

Starfsfólk Jafnréttisstofu stóð upp frá vinnu sinni í gær klukkan ellefu ásamt fleira fólki og myndaði hring á bílastæðinu fyrir utan Borgir á Akureyri til að sýna á táknrænan hátt samstöðu gegn kynþáttamisrétti. Tilefnið var að í gær 21. mars var alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu til að minnast 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars árið 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.

#Kvennastarf

Jafnréttistorg miðvikudaginn 22. mars kl. 12.00-12.50 í Háskólanum á Akureyri. Þar munu Ágústa Sveinsdóttir, markaðsfulltrúi Tækniskóla Íslands, og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar skólans, fjalla um átakið #Kvennastarf og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið verður í stofu M-102 og er öllum opið án endurgjalds. Það er Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu, sem standa að átakinu. Markmiðið er að hvetja stelpur og ungt fólk almennt til að skoða alla möguleika í vali á námi og framtíðarstarfi og horfa opnum augum á hvar áhugasvið þeirra liggur. Allir eiga að geta starfað við það sem þá langar til. Jafnréttistorgin eru samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri.

Yfirlit um jafnréttismál á ensku

Jafnréttisstofa hefur nú gefið út nýtt yfirlit um jafnréttismál á ensku. Útgáfan inniheldur upplýsingar um stöðu jafnréttismála, tengsl málaflokksins við stjórnsýslu og rannsóknir ásamt umfjöllun um þá fjölmörgu aðila sem vinna að kynjajafnrétti á Íslandi.  Útgáfan er kaflaskipt til að einfalda framsetningu og veita gleggri yfirsýn. Á mörgum stöðum er vísað í lesefni, rannsóknir og heimsíður viðeigandi stofnana og samtaka.  Skjalið er aðgengilegt á pdf-formi HÉR

Fullt út úr dyrum á Akureyri

Tæplega tvöhundruð manns sóttu hádegisfund á Akureyri í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna. Umfjöllunarefni fundarins var líðan ungs fólks. Frummælendur voru Ingibjörg Auðunsdóttir fyrrverandi sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri, menntaskólakennarinn Arnar Már Arngrímsson handhafi verðlauna Norðurlandaráðs í barna- og unglingabókmenntum 2016 og Karólína Rós Ólafsdóttir nemandi við Menntaskólann á Akureyri og formaður FemMa Femínistafélags skólans.

KONUR OG KARLAR Á ÍSLANDI 2017

Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2017 er kominn út. Í bæklingnum má finna ýmsar upplýsingar um stöðu kvenna og karla í íslensku samfélagi. Jafnréttisstofa er útgefandi bæklingsins í samstarfi við Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytið. Í bæklingnum kemur fram að karlar hafa hærri laun en konur, þeir eru fjölmennari í áhrifastöðum og sem viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum. Konur lifa hins vegar lengur en karlar, þær eru fjölmennari í háskólanámi og taka frekar fæðingarorlof. Bæklingurinn er gefinn út á ensku og íslensku. Hægt er að nálgast útgáfuna hér á heimasíðunni á íslensku og ensku. Einnig er hægt að panta eintök með því að senda póst til Jafnréttisstofu á netfangið jafnretti@jafnretti.is 

ALÞJÓÐLEGUR BARÁTTUDAGUR KVENNA

Jafnréttisstofa minnir á hádegisfundi í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna miðvikudaginn 8. mars. Á Grand hótel Reykjavík er yfirskrift fundarins Öll störf eru kvennastörf! Brjótum upp kynbundið náms- og starfsval. Dagskrá fundarins má finna hér. Í anddyri Borga á Sólborgarsvæðinu á Akureyri verður hins vegar fjallað um ungt fólk og er yfirskriftin Líðan ungs fólks. Hvað er til ráða?  Dagskrá fundarins má finna hér. Báðir fundirnir hefjast klukkan 11:45.

Styrkir til náms í leikskólakennarafræðum

Ákveðið hefur verið að ráða þrjá karlkyns verkefnisstjóra og veita þeim styrk að upphæð 1.000.000 kr. til að hefja nám á meistarastigi haustið 2017 sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.  Það eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sem hafa tekið höndum saman til að vinna að verkefni undir yfirskriftinni „Karlar í yngri barna kennslu“.