Fréttir

Nefndir, ráð og stjórnir 2015 – enn er verk að vinna

Skýrsla Jafnréttisstofu um  nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna er komin út . Í skýrslunni eru kyngreindar upplýsingar fyrir árið 2015 og þróun síðustu ára. Kynjakvóti var leiddur í lög árið 2008 og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt.  Helstu niðurstöður ársins 2015 eru:  •             Hlutfall kynjanna í öllum nefndum allra ráðuneyta er 45% konur og 55% karlar •             Í heildina voru 61% starfandi nefnda skipaðar í samræmi við 15. greinina •             Hlutfall kynjanna í nýskipuðum nefndum er 45% konur og 55% karlar •             Í heildina voru 67% nýskipaðra nefnda í samræmi við 15. greinina 

Jafnrétti í skólasstarfi

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Jafnréttisstofa boða til ráðstefnu um jafnrétti í skólastarfi. Samkvæmt námskrá nær jafnrétti til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs. Þessa dagana er verið að auglýsa eftir áhugaverðu efni, hvort heldur í málstofur eða smiðjur.

Jafnréttismál - gæluverkefni eða grundvallaratriði?

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, brautryðjandi í kynjafræðikennslu í framhaldsskólum, kom til Akureyrar sl. föstudag á vegum verkefnisins Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir. Óhætt er að segja að Hanna Björg láti engan ósnortinn þegar jafnrétti kynjanna er annars vegar.

Feðraveldið og loftslagsbreytingar

Hafa loftslagsbreytingar eitthvað með feðraveldið að gera? Þetta er meðal þess sem Dr. Auður H Ingólfsdóttir mun ræða um á fyrirlestri í Háskóla Íslands,  föstudaginn 10. febrúar n.k. Fyrirlesturinn fer fram í Odda, stofu 101, kl. 12:00-13:00. Í erindinu mun Auður skýra frá því hvernig hún beitti feminískum greiningatækjum við að skoða mótun og framfylgd loftslagsstefnu á Íslandi í nýlegri doktorsrannsókn sinni. Þar skoðar hún hvaða hindranir koma helst í veg fyrir að tekist sé á við loftslagsvandann og beinir sjónum m.a. að pólitískri orðræðu og þeim gildum sem ráða för við stjórnun náttúruauðlinda. Sérstaklega er horft til með hvaða hætti gildi sem flokka mætti sem karllæg eða kvenlæg hafa áhrif á ákvarðanatöku og hvernig við skynjum tengsl manns og náttúru.

10. NORRÆNA RÁÐSTEFNAN UM MÁL OG KYN

10. norræna ráðstefnan um mál og kyn verður haldin í Háskólanum á Akureyri dagana 20.-21. október 2017. Ráðstefna þessi er nú haldin í fyrsta sinn á Íslandi en hún er einn helsti vettvangur norrænna fræðimanna og -kvenna til fræðilegrar umræðu á þessu sviði rannsókna. Ráðstefnan á rætur sínar innan málvísinda og hefur þannig einkum höfðað til þeirra sem fást með einum eða öðrum hætti við mál og kyn innan ramma félagslegra málvísinda, orðræðu- og/eða samtalsgreiningar, mállýskufræða, málsögu eða annarra greina málvísinda, en hún er þó ekki síður opin fræðafólki sem nálgast þetta efni frá sjónarhóli félagsfræði, kynjafræði, bókmenntafræði, menntunarfræði og fleiri greina.

"Making the Invisible Visible"

Jafnréttisstofa í samstarfi við Norrænar stofnanir og samtök, ásamt alþjóðasamtökunum MenEngage, mun standa að ráðstefnunni Making the Invisible Visible í Ósló þann 16. febrúar næstkomandi. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á svið jafnréttismála sem snerta drengi og karla sérstaklega og leitað verður svara við því hvernig þátttaka þeirra getur stuðlað að auknum gæðum í jafnréttisstarfi. Aðalfyrirlesari er Norðmaðurinn Thomas Walle. Hann mun fjalla um þróun jafnréttishugtaksins með áherslu á hugmyndir um forréttindi karla í umræðu um mismunun og jafna stöðu kynjanna. Þá munu ungir jafnréttissinnar ræða hvað helst brennur á þeim og gefa dæmi um svið jafnréttismála sem tengjast hugmyndum um karla og karlmennsku. Norræna ráðherranefndin styrkir ráðstefnuna.  Nánari upplýsingar um ráðstefnuna ásamt dagskrá og kynningu á málsstofum má sjá HÉR

FÖGNUM FJÖLBREYTILEIKANUM

Dagatal Jafnréttisstofu fyrir árið 2017 er komið út. Að þessu sinni er dagatalið helgað mannréttindabaráttu í víðum skilningi með tilvitnun í 65. grein stjórnarskrár Íslands en þar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“  Að venju er dagatalinu dreift til sveitarfélaga, skóla, stofnanna og fyrirtæja um land allt. Þeir sem hafa áhuga á að eignast dagatalið geta sent póst á netfangið jafnretti[hjá]jafnretti.is eða hringt í síma 460-6200 og fengið það sent sér að kostnaðarlausu. Stærð dagatalsins er 38*62cm.  

Jafnréttissjóður Íslands auglýsir styrki til umsóknar

Í velferðarráðuneytinu er starfræktur Jafnréttissjóður Íslands sem stofnaður var á grundvelli þingsályktunar nr. 13/144 sem samþykkt var í tilefni 100 ára kosningaréttarafmælis íslenskra kvenna. Megintilgangur Jafnréttissjóðs Íslands er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem efla eiga jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

Kallað eftir umsóknum

Þann 1. mars verður opnað fyrir umsóknir ársins 2017 í Norræna jafnréttissjóðinn! Jafnréttissjóður Norrænu ráðherranefndarinnar styrkir verkefni þar sem minnst þrjú Norðurlönd vinna saman til að koma á jafnrétti kynja. Frá árinu 2013 hafa yfir 40 verkefni verið styrkt. Niðurstöður verkefnanna hafa verið fjölbreytt, allt frá þjálfun í stefnumótun til myndun nýrra norrænna tengslaneta.  

Formennskuáætlun Noregs í norrænu ráðherranefndinni

Árið 2017 fer Noregur með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og hefur nú lagt fram áherslur sínar í jafnréttismálum.  Þær byggja á samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um jafnrétti kynja 2015-2018 sem ber yfirskriftina Saman í þágu jafnréttis – öflugri Norðurlönd. Áherslur ársins eru að vinna gegn ofbeldi og hatursorðræðu, jafnrétti á vinnumarkaði og karlar og jafnrétti. Fyrsti viðburður ársins verður ráðstefna um jafnrétti á vinnumarkaði undir yfirskriftinni Vinnumarkaður framtíðarinnar sem haldin verður í Osló dagana 7.-8. febrúar.