Kynjadagar Listaháskóla Íslands eru haldnir vikuna 6. október - 10. október. Dagskráin er helguð kynjunum og kynjaímyndum. Nemendur Listaháskólans og listamenn kynna verk tengd kynjafræðum og verða með innlegg. Kynjadagar LHÍ eru haldnir að frumkvæði jafnréttisnefndar skólans.
06.10.2008
Í samræmi við nýsamþykkt lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla boða félags- og tryggingamálaráðuneytið og Jafnréttisráð til jafnréttisþings 7. nóvember næstkomandi að Hótel Sögu frá klukkan 9 til 17.
29.09.2008
Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram dagana 18.-19. september í Mosfellsbæ. Fundurinn tókst mjög vel og voru fundargestir á fimmta tug frá öllu landinu. Á fundinum var Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum kynntur, auk þess sem ályktanir um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og stjórnun fyrirtækja, jafnrétti í skólum og kynbundinn launamun voru samþykktar.
23.09.2008
Akureyrarbær og Mosfellsbær urðu í síðustu viku fyrstu íslensku sveitarfélögin til þess að undirrita Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarstjórnum og héruðum. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, skrifaði undir sáttmálann í lok landsfundar sveitarfélaga, sem haldinn var sl. föstudag, en Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, skrifaði undir sáttmálann fyrr í vikunni.
22.09.2008
Rúmlega 50 manns sóttu jafnréttisþing sem fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stóð fyrir sl. fimmtudag, en þingið var haldið til heiður Helgu J. Magnúsdóttur sem var fyrst kvenna oddviti í sveitarfélaginu fyrir hálfri öld. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að fæðingardagur Helgu, 18. september, verði framvegis árlegur jafnréttisdagur bæjarins.
22.09.2008
Landsfundur jafnréttisnefnda fer fram í dag í Mosfellsbæ. Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stendur fyrir fundinum að þessu sinni. Dagskrá landsfundarins hófst í gær að loknu jafnréttisþingi Mosfellsbæjar og heldur áfram nú kl. 9.
21.09.2008
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stendur fyrir jafnréttisþingi sem haldið verður í Hlégarði í Mosfellsbæ í dag, fimmtudaginn 18. september. Þingið hefst kl. 13, en það er haldið í samvinnu við Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.
18.09.2008
Heimasíða þróunarverkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum var formlega opnuð af Jóhönnu Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, í dag. Heimasíðunni er ætlað að vera aðgengilegur gagnabanki fyrir kennara, nemendur, námsráðgjafa, foreldra og alla þá sem vilja fræðast og fræða um jafnrétti í námi og starfi.
17.09.2008
Niðurstöður íslensku Jafnréttisvogarinnar voru kynntar fyrr á árinu, en um var að ræða Evrópuverkefni þar sem staða jafnréttismála í sveitarfélögum var mæld. Gagnaöflun fór fram á árinu 2007 og í nokkrum tilfellum skiluðu gögn frá sveitarfélögum sér ekki inn í Jafnréttisvogina. Ákveðið hefur verið að taka tillit til gagna frá þeim sveitarfélögum sem skiluðu seint á árinu og hefur röðun íslensku sveitarfélaganna nú verið endurreiknuð.
16.09.2008
Íslendingar telja að efnishyggja, skammsýni og óvissa um framtíðina einkenni íslenskt þjóðfélag, ef marka má rannsókn sem Capacent gerði nýlega og kynnt var á fyrirlestri Richards Barrett í Salnum í Kópavogi í síðustu viku. Kynjamisrétti er í níunda sæti yfir þau gildi sem almenningur telur að séu ríkjandi í samfélaginu, samkvæmt rannsókninni.
15.09.2008