Á Miðvikudaginn 16. apríl verður haldið Jafnréttistorg Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri og verða nýju jafnréttislögin til umfjöllunar. Kristín Ástgeirsdóttir,framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, mun fjalla um hvernig jafnréttislögin hafa þróast á Íslandi frá því að fyrstu lögin voru sett árið 1976. Mun hún meðal annars skoða hvaða breytingar hafa átt sér stað á lögunum á þessum árum. Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur Jafnréttisstofu, mun kynna nýju jafnréttislögin, fjalla um helstu breytingar sem þeim fylgja og ræða hvaða áhrif þau geta haft á framtíð jafnréttismála.
11.04.2008
Í gær gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2008, í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn er hugsaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi og hefur hann einnig verið gefinn út á ensku.
11.04.2008
Samband íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa hafa tekið höndum saman um að láta þýða Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Sáttmálinn verður kynntur fyrir sveitarfélögum í byrjun maí og vonast er til að sem flest sveitarfélög í landinu undirriti hann á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem haldinn verður í Mosfellsbæ 18. og 19. september næstkomandi.
10.04.2008
Hlutverk og verkefni Jafnréttisstofu hafa aukist með gildistöku nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þess vegna óskar Jafnréttisstofa eftir að ráða sérfræðing í fullt starf. Umsóknarfrestur er til 15. apríl. Viðkomandi þarf að geta hafið störf eigi síðar en 1. júní.
18.03.2008
Í kvöld heldur Karlahópur Femínistafélags Íslands Karlakvöld undir yfirskriftinni Andfemínismi - er í lagi að hata femínista? Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn á Grand Rokk. Fundurinn er öllum opinn.
18.03.2008
Í síðasta mánuði gaf Jafnréttisstofa í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneyti út bæklinginn Women and Men in Iceland 2008. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum. Bæklingurinn er á ensku og er meðal annars ætlaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi erlendis.
14.03.2008
Í dag eru liðin 25 ár frá því að Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð. Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum í Alþingiskosningum vorið 1983 og fékk 5,5% atkvæða og þrjár konur kjörnar á þing. Í þeim kosningum jókst hlutur kvenna á þingi svo um munaði og þingkonum fjölgaði úr þremur í níu.
13.03.2008
Í ár mun Kynfræðifélag Íslands halda árlega ráðstefnu samtaka norrænna kynfræðifélaga. Ráðstefnan verður haldin dagana 4. - 7. september 2008 á Grand Hótel í Reykjavík. Yfirskrift ráðstefnunnar er Training and Research in Sexology. Ráðstefnan fer fram á ensku.
11.03.2008
Kanadíska sendiráðið á Íslandi í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið, Háskóla Íslands Stofnun stjórnsýslufræða, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Alþjóðahúsið, býður til opins málþings um reynslu og ávinning kanadískra fyrirtækja af því að hafa fjölbreytni (diversity) starfsmanna í fyrirrúmi. En Kanada þykir standa framarlega á þessu sviði og er m.a. með sérstakt ráðuneyti um fjölbreytni og fjölmenningu. Markmið málþingsins er að greina hvernig fjölbreytni starfsfólks, getur verið ávinningur fyrirtækja.
11.03.2008
UNIFEM efnir til opins fundar laugardaginn 8. mars kl. 12:00-13:30 í stofu 105 Háskólatorgi Háskóla Íslands. Utanríkisráðherra Líberíu, Olubanke King Akerele, verður heiðursgestur á fundinum sem Háskóli Íslands býður til í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Auk King Akerele munu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Joanne Sandler, starfandi aðalframkvæmdastjóri UNIFEM í New York og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafa framsögu. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK við HÍ og Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki og formaður undirbúningsnefndar um stofnun alþjóðlegs jafnréttisskóla, stjórna umræðum.
11.03.2008