Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Jafnréttisstofu unnið að því að endurskoða og endurbæta heimasíðu stofunnar. Unnið var að því að breyta og lagfæra útlit síðunnar með það í huga að tryggja notendavænna umhverfi. Til þess að tryggja betra aðgengi notenda voru aðgengismál fyrir sjónskerta uppfærð og nú er einnig hægt að senda okkur tölvupóst með því að velja ,,Hafa samband hnappinn ofarlega á síðunni. Til þess að tryggja greiðari aðgang að öllu efni síðunnar voru allir málaflokkar endurskipulagðir og uppfærðir.
05.12.2007
Í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi efna Leikfélag Akureyrar og Jafnréttisstofa til sérstakrar aukasýningar á leikritinu Ökutímum eftir Paula Vogel sunnudaginn 9. des. kl. 20.00. Á eftir verða umræður sérfræðinga, leikhússfólks og áhorfenda. Sýningar á Ökutímum hafa staðið frá því í byrjun nóvember og hafa vakið mikla athygli og sterk viðbrögð. Uppselt hefur verið á allar sýningar til þessa.
05.12.2007
Föstudaginn 23. nóvember síðastliðinn var haldin ráðstefnan Kynbundinn launamunur - Aðferðir til úrbóta. Vegna fjölda fyrirspurna hefur verið ákveðið að birta erindin á heimasíðunni.
04.12.2007
Jafnréttisstofa í samstarfi við Ár jafnra tækifæra og félagsmálaráðuneytið efnir til ráðstefnunnar Kynbundinn launamunur - Aðferðir til úrbóta þann 23. nóvember kl. 13-16 í Sunnusal Hótel Sögu. Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á kynbundnum launamun sem unnin var upp úr gögnum Hagstofu Íslands um atvinnutekjur þjóðarinnar. Í rannsókninni voru skoðaðar atvinnutekjur og heildartekjur kynjanna, eftir hjúskaparstöðu, aldri og búsetu. Einnig verða ræddar ólíkar aðferðir sem notaðar hafa verið til að vinna bug á þeim vanda sem kynbundinn launamunur er.
28.11.2007
Nýtt verkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum, er að hefja göngu sína. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu er hægt að gefa ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu og hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra.
13.11.2007
Dagana 9. - 10. nóvember, stendur RIKK fyrir fjórðu ráðstefnu stofnunarinnar um stöðu og leiðir kynjarannsókna. Þessum ráðstefnum er ætlað veita innsýn í þverfaglegt rannsóknastarf á fræðasviðinu. Ráðstefnan um næstu helgi sýnir breidd, fjölbreytni og grósku í íslenskum kvenna- og kynjarannsóknum. Á áttunda tug fræðimanna fjalla um rannsóknir sínar í 18 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stockholm og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.
13.11.2007
Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin verður haldið föstudaginn 16. nóvember nk. á Hótel Loftleiðum. Verkefnið snýst um að mæla stöðu jafnréttis hjá sveitarfélögum í fimm löndum og verða niðurstöður þess kynntar á ráðstefnunni.
12.11.2007
Félag um foreldrajafnrétti stendur fyrir ráðstefnunni Réttindi barna við skilnað á feðradaginn, sunnudaginn 11. nóvember kl. 16.
09.11.2007
Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur verður afhjúpaður á horni Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs þann 7. nóvember. Heiðar Eiríksson flytur fyrirlesturinn Mansal og kynlífsþrælkun í tengslum við friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á Fimmtudagshlaðborði Akureyrarakademíunnar, þann 8. nóvember. Kynjafræðiþing verður svo haldið 9. og 10. nóvember í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Boðið er upp á um 70 fyrirlestra í 16 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stokkhólmi og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.
06.11.2007
Nú hefur verið lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til jafnréttislaga. Það má nálgast hér. Einnig er hægt að fylgjast með ferli málsins á þingi á þessari slóð.
02.11.2007