Í dag eru liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í tilefni dagsins er boðið upp á fjölbreytta dagskrá víða um landið.
19.06.2008
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Í tilefni dagsins verður í ár boðið upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna.
16.06.2008
Rannsóknasetur vinnuréttar hefur birt upplýsingar um hlutfall kvenna í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda í 120 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi fyrir árið 2008. Helstu niðurstöður eru þær að konur skipa 13% stjórnarsæta og eru æðstu stjórnendur (forstjóri eða framkvæmdastjóri) fyrirtækja í 8% tilvika. Hlutfall kvenna meðal æðstu yfirmanna, þ.e. þeirra sem koma næstir í skipuriti á eftir æðsta stjórnanda, er 19%.
05.06.2008
Þann 19. september 2008 stendur Háskólinn á Bifröst fyrir ráðstefnu um fjölbreytileika í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja. Meðal fyrirlesara verður Eleanor Tabi Haller-Jorden, framkvæmdastjóri Catalyst í Evrópu, en Catalyst er leiðandi fyrirtæki í rannsóknum á sviði jafnréttis og viðskipta. Þá mun Marit Hoel, framkvæmdastjóri Centre for Corporate Diversity í Noregi og Nordic 500 könnunarinnar segja frá reynslu Norðmanna af kynjakvóta í stjórnum. Aðrir fyrirlesarar koma úr röðum háskólafólks og úr viðskiptalífinu.
26.05.2008
Í dag, fimmtudaginn 22. maí 2008, undirrituðu Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri, Árni Þór Hilmarsson, framkvæmdastjóri fræðslusviðs Kópavogsbæjar, Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar og Jóhanna B. Magnúsdóttir, formaður fjölskyldunefndar í Mosfellsbæ, samstarfssamning um þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Undirritunin fór fram í leikskólanum Hörðuvöllum í Hafnarfirði í kjölfar fyrsta vinnufundar verkefnisins sem er hrint úr vör í tengslum við Dag barnsins sunnudaginn 25. maí næstkomandi.
23.05.2008
Mánudaginn 26. maí kl. 12 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands verður haldinn fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Landsnefndar UNIFEM á Íslandi, um eflingu kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
22.05.2008
Dagana 28. til 30. janúar 2009 verður haldin norræn ráðstefna í Roskilde um karla og karlmennskur undir yfirskriftinni "Changing Men and Masculinities in Gender Equal Societies?".
20.05.2008
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nýtt Jafnréttisráð og nýja kærunefnd jafnréttismála í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem tóku gildi 6. mars síðastliðinn.
20.05.2008
Tengslanet IV - Völd til kvenna verður haldin í Háskólanum á Bifröst dagana 29. og 30. maí 2008. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er Konur og réttlæti og á meðal fyrirlesara verða Judith Resnik prófessor við lagadeild Yale og Maud de Boer-Buquicchio annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Fjöldi áhugaverðra kvenna af ýmsum sviðum samfélagsins verður með framsögur í tengslum við megin þemað. Stjórnandi og skipuleggjandi Tengslanetsins frá upphafi er dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor.
19.05.2008
Auður Arna Arnardóttir, lektor í viðskiptadeild HR og Margrét Jónsdóttir, forstöðumaður á Alþjóðasviði við HR halda í dag erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, kl. 12:00 í Odda, stofu 101. Í erindinu greina þær frá niðurstöðum tveggja rannsókna sem styrktar voru úr Jafnréttissjóði.
08.05.2008