Fréttir

Forskot með fjölbreytileika - málþing um jafnréttismál

Föstudaginn 25. apríl standa jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir málþingi um jafnrétti á breiðum grundvelli, með yfirskriftinni „Forskot með fjölbreytileika“. Fjallað verður um jafnréttismál frá ýmsum sjónarhornum, og er markmiðið að skapa samræðu milli fræðafólks í báðum skólum, nemenda, stjórnsýslu, og annarra sem áhuga hafa á jafnréttismálum. Það er stefna Háskóla Íslands að vera ávallt í fararbroddi í jafnréttismálum og liður í því er að skapa og viðhalda umræðu um kynja- og jafnréttismál með margvíslegum hætti.

Menntastefna og menntun drengja og stúlkna

Opinn fyrirlestur verður haldinn á vegum kennaradeildar Háskólans á Akureyri í dag 21. apríl kl. 16:30 í stofu 21, 2. hæð í Þingvallastræti 23. Fyrirlesari er Bob Lingard, prófessor við Edinborgarháskóla. Í fyrirlestrinum ræðir Lingard alþjóðlega strauma í orðræðu um menntun, einkum þá hugmynd að menntun drengja hafi farið hrakandi og hvaða áhrif þetta hefur á réttlátt skólastarf fyrir drengi sem stúlkur. Lingard styður í erindi sínu við tilviksrannsókn í Ástralíu og ræðir meðal annars skýrslur frá áströlsku ríkisstjórninni.

Íslenskar konur og alþjóðastofnanir

Edda Jónsdóttir, sérfræðingur í mannréttindum heldur erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum fimmtudaginn 17. apríl kl. 12:00 í Háskólabíói, sal 4 – kjallari. Edda flytur erindi um íslenskar konur og alþjóðastofnanir og byggir erindið á lokaritgerð sinni um þátttöku Íslands í mannréttindatengdu starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Ný jafnréttislög – hvar erum við stödd?

Á Miðvikudaginn 16. apríl verður haldið Jafnréttistorg Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri og verða nýju jafnréttislögin til umfjöllunar. Kristín Ástgeirsdóttir,framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, mun fjalla um hvernig jafnréttislögin hafa þróast á Íslandi frá því að fyrstu lögin voru sett árið 1976. Mun hún meðal annars skoða hvaða breytingar hafa átt sér stað á lögunum á þessum árum. Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur Jafnréttisstofu, mun kynna nýju jafnréttislögin, fjalla um helstu breytingar sem þeim fylgja og ræða hvaða áhrif þau geta haft á framtíð jafnréttismála.

Konur og karlar á Íslandi 2008

Í gær gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2008, í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn er hugsaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi og hefur hann einnig verið gefinn út á ensku.

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum

Samband íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa hafa tekið höndum saman um að láta þýða Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Sáttmálinn verður kynntur fyrir sveitarfélögum í byrjun maí og vonast er til að sem flest sveitarfélög í landinu undirriti hann á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem haldinn verður í Mosfellsbæ 18. og 19. september næstkomandi.

Jafnréttisstofa óskar eftir sérfræðingi

Hlutverk og verkefni Jafnréttisstofu hafa aukist með gildistöku nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þess vegna óskar Jafnréttisstofa eftir að ráða sérfræðing í fullt starf. Umsóknarfrestur er til 15. apríl. Viðkomandi þarf að geta hafið störf eigi síðar en 1. júní.

Karlakvöld Femínistafélags Íslands - Andfemínismi

Í kvöld heldur Karlahópur Femínistafélags Íslands Karlakvöld undir yfirskriftinni Andfemínismi - er í lagi að hata femínista? Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn á Grand Rokk. Fundurinn er öllum opinn.

Staða kynjanna á Íslandi 2008

Í síðasta mánuði gaf Jafnréttisstofa í samstarfi við Hagstofu Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneyti út bæklinginn Women and Men in Iceland 2008. Um er að ræða samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á atvinnumarkaðnum, í menntakerfinu og í áhrifastöðum. Bæklingurinn er á ensku og er meðal annars ætlaður til að kynna stöðu jafnréttismála á Íslandi erlendis.

Aldarfjórðungur liðinn frá stofnun Kvennalistans

Í dag eru liðin 25 ár frá því að Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð. Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum í Alþingiskosningum vorið 1983 og fékk 5,5% atkvæða og þrjár konur kjörnar á þing. Í þeim kosningum jókst hlutur kvenna á þingi svo um munaði og þingkonum fjölgaði úr þremur í níu.