Fréttir

Konur, kynjajafnrétti og efnahagskreppan

Alþjóðleg ráðstefna um konur, kynjajafnrétti og kreppuna fer fram við Háskóla Íslands 21. og 22. apríl nk. Ráðstefnan verður haldin í stofu 105 og 101 á Háskólatorgi og fer fram á ensku. 

Aflið, samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi á Norðurlandi 10 ára

Í tilefni af afmælinu verður boðið upp á málþingið Segðu frá! föstudaginn 13. apríl. Málþingið verður haldið í Hafnarvitanum sem er staðsettur við Eimskip á Akureyri kl. 16.00 og þar koma fram Sigrún Sigurðardóttir frá Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi, Guðrún Ebba Ólafsdóttir frá Drekaslóð, Thelma Ásdísardóttir frá Drekaslóð, Sigríður Björnsdóttir frá Blátt Áfram, Anna María Hjálmarsdóttir frá Aflinu, og Jóhanna G Birnudóttir frá Aflinu.  Fundarstjórn verður í höndum Ívars Helgasonar.

Ofbeldi, vanræksla og ill meðferð

Símenntun Háskólans á Akureyri býður upp á námskeið á meistarastigi um ofbeldi, vanrækslu og illa meðferð; einkenni, afleiðingar, forvarnir og meðferð. Námið hentar þeim sem starfa við heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólakerfið, löggæslu, dómskerfið og sjálfstætt starfandi aðila sem vinna með fólki, einnig þeim sem hafa áhuga á að starfa á þeim vettvangi.

"Flengdar konur kvikmyndanna"

MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands býður upp á hádegisfyrirlestur þann13. mars í Miðjunni í HÍ. Þar mun Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði, fjalla um flengdar konur kvikmyndanna en í kvikmyndum birtast ákveðnir þættir dægurmenningar okkar og þar á meðal sýnin á karla og konur. Frá upphafi kvikmynda má finna dæmi um að fullorðnar konur séu barngerðar m.a. með flengingu.Ástæður og réttlætingar hafa verið nokkrar og í erindinu verður fjallað um þær og sýnd dæmi úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Öll velkomin.

18,7% útilistaverka í Reykjavík eru eftir konur en 78,9% eftir karla

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilefni dagsins hafa mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar gefið út bækling sem nefnist „Kynlegar tölur“ og hefur hann að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni. 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars verður boðið upp á spennandi viðburði í Reykjavík og á Akureyri. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér viðburði dagsins. Í boði er fjölbreytt dagskrá um jafnréttismál.

Kynleg kreppa

MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna býður upp á opinn fyrirlestur í Miðjunni í Háskólabíói þriðjudaginn 6. mars kl. 12:00-13:00. Þar mun Bryndís E. Jóhannsdóttir, MA í blaða- og fréttamennsku, diplóma í hagnýtri jafnréttisfræði fjalla um kynjajafnrétti á umbrotatímum, velferðarkerfið og hlutverk þess í jafnréttismálum, frjálst eða þvingað val og túlkun þess, hvort jafnrétti á heimilum sé undirstaða raunverulegs jafnréttis, kynjaðan niðurskurð og formleg úrræði til að sporna við bakslagi í jafnréttismálum. Öll velkomin

Kynbundin áhrif loftslagsbreytinga

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ávarpaði morgunverðarfund um kynbundin áhrif loftslagsbreytinga, sem haldinn var á Hóteli Sögu þann 24. febrúar sl. Fundurinn var á vegum Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands (GEST Programme) sem stendur að námskeiðum í Úganda síðar á árinu í því skyni að auka þekkingu og færni fólks til að vinna að verkefnum á sviði jafnréttis og loftslagsbreytinga. 

Klámvæðing er kynferðisleg áreitni

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK – miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands gefa út bækling sem nefnist Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu. Upplýsingar um þetta efni hafa ekki áður komið út á íslensku og er bæklingurinn ætlaður starfsfólki Reykjavíkurborgar og starfsfólki og nemendum Háskóla Íslands. 

Karlarnir og hrunið-Yfirráð, undirgefni og tilfærsla valds meðal karla

Karlar og hugmyndir um karlmennsku léku lykilhlutverk í þeim atburðum sem leiddu til hrunsins. En karlar eru ekki einsleitur hópur og allir karlar hafa ekki völd. Völd er ekki gefin stærð, föst og óumbreytanleg heldur flæðandi og mótanleg. Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir fjalla um breytingar á valdatengslum meðal karla í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þær skoða samspil pólitísks vald og peningavalds og hvernig það tengist pólitískum hugmyndastraumum og orðræðu samtímans.  Umfjöllun Þorgerðar og Gyðu Margrétar fer fram í Gimli 102 kl.12-13. Öll velkomin!