Fréttir

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2014

Reykjavíkurborg boðar til landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga 18.-19. september 2014. Landsfundur jafnréttisnefnda er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum.  Landsfundurinn er opinn fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga, en einnig eru velkomnir á fundinn sveitarstjórnarmenn, og fulltrúar þeirra sveitarstjórna sem ekki hafa skipað jafnréttisnefndir ásamt því starfsfólki sem vinnur að jafnréttismálum. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Landsfundir jafnréttisnefnda sveitarfélaga hafa farið fram víða um land en hér má finna fréttir af fyrri fundum.

Misræmi milli réttinda og raunveruleika

Í gær, fimmtudaginn 21. ágúst, flutti hugsjóna- og listhópurinn Barningur fyrirlestur um öryggi kvenna á íslenskum vinnumarkaði, með sérstaka áherslu á kynferðislega áreitni og óviðeigandi/særandi framkomu í garð kvenna sem vinna þjónustustörf. Fyrirlesarar voru þau Aron Freyr Heimisson, Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir.

Fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum

Um skeið hefur lista- og hugsjónahópurinn Barningur varpað ljósi á ýmiss samfélagsmál sem tengjast jafnrétti. Hópurinn hefur með umræðu og listsköpun fjallað um staðalmyndir kynjanna, útlitsdýrkun og átröskunarsjúkdóma ásamt því að fjalla um áhrif klámvæðingar á hugmyndir ungs fólks um kynlíf. Á morgun fimmtudaginn 21. ágúst munu þrír meðlimir hópsins, þau Elín Inga Bragadóttir, Margrét Helga Erlingsdóttir og Aron Freyr Heimisson halda fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum. Fyrirlesturinn er haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri (Kaupvangsstræti / Listagil), er öllum opinn  og hefst klukkan 17:30.

„Sænska leiðin“ gefur góða raun í Noregi – rannsóknir skortir enn á Íslandi

Árið 2009 gengu í gildi lög í Noregi sem mæla fyrir um að vændiskaup séu gerð refsiverð en vændissala refsilaus.  Í vikunni kynnti norska ríkisstjórnin úttekt sem gerð hefur verið á framkvæmd og innleiðingu löggjafarinnar fyrstu fjögur árin. Niðurstöður sýna að vændi hefur minnkað um allt að 25% í landinu. Lögin hafa sérstaklega haft áhrif á umfang svokallaðs götuvænds í Ósló, sem hefur minnkað um allt að 60%.  Þeir sem gagnrýndu lögin hvað harðast í undanfara lagasetningarinnar bentu á að bann við vændiskaupum gæti leitt til aukins ofbeldis gagnvart fólki í vændi. Rannsóknin sýnir að þær áhyggjur áttu ekki við rök að styðjast. Þá segja skýrsluhöfundar að löggjöfin hafi haft áhrif á viðhorf ungra karla til vændiskaupa og orðið til þess að minnka eftirspurn hjá þeim.

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum 44%

Við síðustu sveitarstjórnakosningar, þann 31. maí í ár, jókst hlutfall kvenna meðal kjörinna fulltrúa nokkuð. Hlutfall kvenna náði 40% í kosningum árið 2010 en er nú orðið 44%. Tölur síðustu þrjá áratugi sýna mjög afgerandi og skýra þróun í átt til aukins jafnréttis í sveitastjórnum.

Jafnréttisstofa tekur á móti erlendum gestum

Að undanförnu hefur Jafnréttisstofa tekið á móti nokkrum fjölda erlendra gesta. Um er að ræða hóp frá Japan og Tælandi auk sálfræðings frá Bandaríkjunum. Öll voru þau komin hingað til þess að kynna sér ástæðu þess að Ísland hafi verið í efsta  sæti á lista WEF Global Gender Gap Index og undanfarin  fimm ár. 

Baráttuherferð UN Women

Í gær 26.júní var hleypt af stokkunum herferðinni „Empower Women – Empower Humanity: Picture it“ (sem mætti þýða: Valdeflum konur – valdeflum mannkyn: Sýndu í orðum og myndum) í tilefni af því að næsta ár verða 20 ár liðin frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995. Í Peking var samþykkt stórmerk ályktun og aðgerðaáætlun – Pekingsáttmálinn - sem 189 ríki hafa staðfest. Sáttmálinn er í 12 köflum sem spanna allt frá fátækt kvenna til réttinda stúlkubarnsins og umhverfismála. Það blésu vindar mannréttinda og frjálslyndis árið 1995 og þess vegna er Pekingsáttmálinn ótrúlega framsýnn og viðamikill. Undanfarin ár hefur verið að honum sótt af bókstafstrúarmönnum og íhaldsöflum þar sem Vatíkanið í Róm fer fremst í flokki ásamt ríkjum þar sem Íslam ræður ríkjum. Vegna þessarar andstöðu hefur ekki verið vilji til að kalla saman nýja kvennaráðstefnu, fólk hefur óttast að textar yrðu teknir upp að nýju og réttindi kvenna þar með skert. 

Saman um jafnrétti í 40 ár

Þann 26. ágúst næstkomandi býður Eygló Harðardóttir, félags- húsnæðis- og samstarfsráðherra Norðurlanda ásamt Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar til ráðstefnu í Hörpu þar sem haldið verður uppá fjörtíu ára afmæli samstarfs Norðurlandanna á sviði Jafnréttismála. Ráðstefnan er einn af aðalviðburðum á formennskuári Íslands í Norræna ráðherranefndinni árið 2014.

Mjög góð mæting í kvennasögugöngu og kvikmyndahús á Akureyri

Kvennasöguganga Jafnréttisstofu og samstarfsaðila á kvenréttindadaginn var mjög vel sótt í ár en 100 manns tóku þátt að þessu sinni. Gengið var í annað sinn um Oddeyrina og fræðst um líf og störf kvenna, en konur á eyrinni tóku virkan þátt í atvinnulífinu og sáu um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Guðfinna Hallgrímsdóttir og Hallgrímur Skaptason leiddu gönguna og vörpuðu ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni.

Kvennasöguganga í Hafnarfirði

Í kvöld, 19. júní - mun Byggðasafn Hafnarfjarðar standa að sérstakri sumargöngu þar sem gengið verður á slóðir kvenna sem settu svip sinn á sögu bæjarins. Gengið verður frá Pakkhúsinu Vesturgötu 6-8 og hefst gangan kl. 20:00