Dagatal Jafnréttisstofu í ár er tileinkað Ríó samningnum um loftslagsbreytingar sem var samþykktur í New York árið 1992. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. júní 1992 og fullgiltur 16. júní 1993.
Í samningnum er lögð áhersla á nauðsyn þess að öll ríki heims taki þátt í að sporna við loftsslagsbreytingum og vernda vistkerfið.
09.02.2012
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra heimsótti starfsfólk Jafnréttisstofu síðastliðinn föstudag og sat fund um starfssemi stofunnar og brýnustu verkefni framundan. Á fundinum var m.a. rætt um launamisrétti, fræðslustarf, jafnréttisáætlanagerð sveitarfélaga og stofnana auk þess sem farið var yfir helstu þætti sem þarf að hafa í huga við endurskoðun jafnréttislaga. Í för með ráðherranum voru Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, Ingi Valur Jóhannsson, og Björg Fenger.
09.02.2012
Félag um foreldrajafnrétti efnir til ráðstefnu, föstudaginn 10. febrúar kl. 13:30 í Háskólanum í Reykjavík, vegna fyrirhugaðra breytinga á barnalögum varðandi forsjá, umgengni og fleira. Ráðstefnan ber heitið "Af hverju bara á Íslandi, Ný barnalög án dómaraheimildar - Norrænn samanburður" og mun fjalla um heimild dómara til að ákveða hvort foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns en jafnframt verður komið inn á aðra þætti fyrirhugaðra breytinga.
07.02.2012
Miðvikudaginn 25. janúar mun Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi hjá Neytendasamtökunum flytja erindi undir yfirskriftinni Umhverfi og neysla. Torgið hefst kl. 12.00 og er haldið í stofu M102. Allir velkomnir.
25.01.2012
Í tengslum við fund Norðurlandaráðs í nóvember sl. var opnaður norrænn upplýsingabanki um kyn og loftslagsmál á vefnum undir yfirskriftinni: Equal climate – kön och klimaförändring ur ett nordiskt perspektiv. Þar er m.a. að finna ábendingar um það hvernig hægt er að skoða loftslagsmálin út frá kynjasjónarhorni og tengja þeim aðgerðum sem stjórnvöld eða aðrir vinna að til að draga úr gróðurhúsaáhrifum jörðinni til varnar.
20.01.2012
Hjá norrænu ráðherranefndinni er komin út bókin Parental leave, childcare and gender equality in the Nordic countries. Hún hafði áður komið út á norrænum málum. Bókin er afrakstur samstarfs félagsvísindamanna á Norðurlöndunum fimm en Ingólfur V. Gíslason og Guðný Björk Eydal leiddu starfið og ritstýra bókinni.
19.01.2012
Nýlega birti World Economic Forum sem er sjálfstæð alþjóðleg stofnun árlegan lista yfir stöðu kynjajafnréttis í heiminum árið 2011. Þriðja árið í röð vermir Ísland efsta sætið og hefur aðeins bætt stöðu sína frá árinu 2010. Noregur, Finnland og Svíþjóð fylgja fast á eftir í sætum 2-4 en Danmörk er í sjöunda sæti. Það eru einkum pólitísk áhrif kvenna og staðan í menntamálum sem gerir að verkum hve Ísland kemur vel út. Þegar litið er á kynjajafnrétti á vinnumarkaði versnar ástandið heldur og einnig í heilbrigðismálum en reyndar munar sáralitlu milli landa í mælingunum á þessum þáttum.
13.01.2012
Innanríkisráðuneyti, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni efna í samvinnu við Evrópuráðið til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þann 20. janúar nk. Málstofan fer fram í Skriðu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 18. Á ráðstefnunni verða bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar og leitast verður við að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, réttarvörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka sem fjalla um málaflokkinn.
12.01.2012
Starfsfólk Jafnréttisstofu óskar öllum landsmönnum gleðilegrar hátíðar og heillaríks komandi árs.
23.12.2011
Drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum er nú til kynningar innan borgarinnar. Verið er að gefa starfsfólki tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur að úrbótum til að fyrirbyggja ofbeldi. Þetta er fyrsta áætlun sveitarfélags gegn ofbeldi sem nær bæði til kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Akureyrarbær hefur þegar kynnt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldis gegn börnum. Reykjavíkurborg hefur einsett sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi; andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Þetta kemur fram í mannréttindastefnu borgarinnar og í Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla sem Reykjavíkurborg er aðili að. Aðgerðaráætlunin miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem borgarstarfsmenn hafa til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Áætlunin leggur áherslu á samstarf borgarstofnana og samstarf við ríkið og félaga- og grasrótarsamtök sem vinna gegn ofbeldi.
21.12.2011