Á kvenréttindadeginum 19. júní, var aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Aðgerðaráætlunin skiptist í tvo hluta; sá fyrri snýr að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og sá síðari um leiðir til að stemma stigu við ofbeldi gegn börnum. Í áætluninni er lögð áhersla á forvarnir, aðstoð við brotaþola, fræðslu, samstarf og meðferð fyrir gerendur.
25.06.2012
Kvenréttindafélag Íslands heldur upp á kvenréttindadaginn þann 19. júní með hátíðardagskrá og kaffiveitingum á Hallveigarstöðum kl. 17:30
Dagskrá:
Helga Guðrún Jónsdóttir, ávarp formanns Kvenréttindafélags Íslands
Sigurlaug Viborg, ávarp forseta Kvenfélagasambands Íslands
Ragnhildur Jóhanns, frá Endemi, fjallar um konur í list
Fríða Rós Valdimarsdóttir greinir frá niðurstöðum rannsókna um íslenska vændiskaupendur
Steinunn Gyðu- Guðjónsdóttir kynnir Kristínarhús, athvarf fyrir konur sem hafa verið seldar mansali eða stundað vændi og vilja komast út úr því
Kristín Þóra Harðardóttir úthlutar styrkjum úr Menningar- og minningarsjóði kvenna
18.06.2012
Jafnréttisstofa vill minna á að þann 19. júní fer fram kvennasöguganga á Akureyri. Gangan hefst við nýja kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björk, kl. 16:30 og endar við Minjasafnið á Akureyri. Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins mun ávarpa göngufólk. Leiðsögumaður kvennasögugöngunnar í ár er Hörður Geirsson, safnvörður Minjasafnsins.
Boðið verður uppá kaffi að göngu lokinni. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að mæta og upplifa hluta af sögu kvenna í Innbænum. Kvennasögugangan er nú gengin í fimmta sinn á Akureyri en þátttaka hefur alltaf verið mjög góð. Gangan hefur myndað nýja tengingu við Innbæinn og varpar ljósi á líf kvenna sem höfðu margar hverjar mikil áhrif á bæjarlífið á sínum tíma.
18.06.2012
Tilkynning:
Staðall um launajafnrétti verður kynntur á morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 19.júní kl. 8-10. ASÍ, SA og velferðarráðuneytið hafa frá því í árslok 2008 haft forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabirgðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið hefur verið unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.
15.06.2012
Þann 15. júní 2012 ver Þorgerður H. Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína From Gender Only to Equality for All: A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland. Dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor og varadeildarforseti Stjórnmálafræðideildar stýrir athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, kl. 15:00 og er öllum opin. Vörnin fer fram á ensku.
14.06.2012
Grænlendingar hafa ásamt norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál opnað vefsíðu um jafnrétti kynjanna í Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi. Vefsíðan mun bjóða norrænum samtökum sem starfa að jafnréttismálum í þessum löndum upp á samskiptavettvang og aukin tækifæri til samvinnu.
07.06.2012
Á aðalfundi NFMM (Nordisk förening för forskning om män och maskuliniteter) - Norrænna samtaka um rannsóknir á körlum og karlmennsku, þann 31. maí síðastliðinn var Ásta Jóhannsdóttir kosin formaður samtakanna. Markmið NFMM, samtaka sem stofnuð voru í janúar árið 2009, er að auka þekkingu og rannsóknir á sviði karlafræða. Mikilvægur liður í starfsemi samtakanna er útgáfa NORMA – tímarits á fræðasviði karla og karlmennsku. Tímaritið er leiðandi á sviði karlafræða á Norðurlöndum.
06.06.2012
Síðastliðið haust kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá 28 íslenskum framhaldskólum en samkvæmt jafnréttislögum ber vinnustöðum þar sem fleiri en 25 starfsmenn starfa að setja fram jafnréttis- og framkvæmdaáætlun um hvernig stjórnendur ætla að stuðla að jafnrétti kynjanna hvað varðar, laun, ráðningar, sveigjanleika, tækifæri til endurmenntunar og kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
01.06.2012
Þann 29. maí sl. undirrituðu Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu og Zhen Yan varaforseti samtakanna All-China Women´s Federation viljayfirlýsingu um samstarf sem snýr að auknu jafnrétti kynjanna.
30.05.2012
Í nánast hverri viku falla dómar hér á landi í kynferðisbrotamálum. Kynbundið ofbeldi þar með talið kynferðisofbeldi gegn konum og börnum er óhuggulega útbreitt og því mikilvægt að beita öllum tiltækum ráðum til að kveða það niður. Síðast liðinn föstudag 11. maí boðuðu Jafnréttisstofa, Rannsóknarstofnun gegn ofbeldi og Háskólinn á Akureyri til fjölsóttrar ráðstefnu um birtingarmyndir ofbeldis, afleiðingar og úrræði í kjölfar endurmenntunarnámskeiðs sem haldið var við HA.
21.05.2012