Stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun sem enn er viðvarandi vandi á innlendum vinnumarkaði.
16.11.2012
Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem meðal annars var falið að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar. Var þetta gert í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum samþykkt var á liðnu ári. Aðgerðaáætlunin var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 28. september síðastliðinn.
16.11.2012
Velferðarráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu boðar til morgunverðarfundar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á Grand hóteli þriðjudaginn 20. nóvember klukkan 8-10:30. Fundurinn er skipulagður af vinnuhópi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem nú starfar í velferðarráðuneytinu.
14.11.2012
Á morgun 8. nóvember verður haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti hér á landi þar sem þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á heimasíðunni www.gegneinelti.is.
07.11.2012
Steinunn Rögnvaldsdóttir, MA í kynjafræði, mun kynna rannsókn sína á íslenska lífeyriskerfinu, á morgun miðvikudaginn 7. nóvember í stofu M102. Torgið hefst klukkan tólf og stendur til eitt.
Rannsóknir á lífeyriskerfinu frá kynjafræðilegu sjónarhorni varpa ljósi á hvernig staða kvenna á ellilífeyri ber mark áratuga kynjamismununar í íslensku samfélagi. Ólaunuð heimilisstörf kvenna, kynbundinn launamunur og kynskiptur vinnumarkaður ásamt fleiri þáttum hafa myndað gjá milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna.
06.11.2012
Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) hefur gefið út árlega skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum. Ísland er nú í efsta sæti þessarar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna en þetta er í fjórða árið í röð sem Ísland skipar sér í efsta sæti jafnréttislistans. Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum, þ.e. út frá aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.
25.10.2012
Akureyrarbær hefur í gegnum sína jafnréttisstefnu og með ötulu starfi Katrínar Bjargar Ríkarðsdóttur framkvæmdastjóra Samfélags- og mannréttindadeildar bæjarins komið því til leiðar að allir grunnskólar bæjarins hafa sett sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir. Skólarnir skila jafnréttisáætlununum inn til Samfélags- og mannréttindaráðs sem tekur þær til umfjöllunar.
24.10.2012
Forsætisráðherra afhendir styrki úr Jafnréttissjóði á Kvennafrídaginn miðvikudaginn, 24. október nk. Styrkirnir verða afhentir við athöfn í Rímu á jarðhæð Hörpu kl. 15. Dagskráin hefst með málþingi um niðurstöður þeirra rannsóknarverkefna sem hlutu styrk úr sjóðnum árið 2008. Jafnframt mun velferðarráðherra kynna nýja framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarnarinnar um launajafnrétti kynja.
23.10.2012
Jafnréttisstofa býður til opins hádegisfundar á kvennafrídaginn 24. október þar sem erindi og umræður um kynbundið launamisrétti munu fara fram. Fundurinn verður haldinn á Hótel Kea og hefst hann kl. 12.
Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri munu flytja erindi og mun Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri sjá um fundarstjórn.
22.10.2012
Ísland er aðili að samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum. Í nóvember 2011 fól ríkisstjórnin verkefnisstjórn með fulltrúum úr innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti að undirbúa vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði í samningnum. Alþingi veitir fjármagn í þessa vitundarvakningu sem beinist að börnum, fólki sem starfar með börnum og réttarvörslukerfinu.
19.10.2012