Fréttir

Kynjasamþætting í 15 ár

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir fundaröð veturinn 2012-2013 og er fyrsti fundurinn haldinn í samstarfi við EDDU öndvegissetur. Fundurinn ber yfirskriftina Kynjasamþætting í 15 ár: Alþjóðleg viðhorf og stefna Evrópusambandsins og fer fram föstudaginn 19.október kl. 12-13:15 í Odda 201.

Jafnréttisfræðsla hjá Reykjavíkurborg

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og Skóla- og frístundasvið með stuðningi Jafnréttisstofu hafa tekið höndum saman um jafnréttisfræðslu fyrir kennara í leik- og grunnskólum og starfsfólk í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum borgarinnar.  Fræðslan er mikilvæg í ljósi þess að í nýrri aðalnámskrá grunnskóla er jafnrétti ein af grunnstoðum menntunar. Auk þess er tilgreint í jafnréttislögum, sbr. 23. grein, að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem fjölskyldu- og atvinnulífi. Einnig segir í sömu grein að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.

Klám: Löggjöf, kynferði, (ó)menning, sjálfsmynd og nánd

Innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti, í samstarfi við lagadeild Háskóla Íslands, efna til ráðstefnu um klám þann 16. október nk. í hátíðarsal Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður fjallað um klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarhorni og því velt upp hvert hlutverk löggjafans og stjórnvalda er í þeim efnum og hvernig skilgreina eigi klám. 

Áfangaskýrslur ráðuneytanna í kynjaðri hagstjórn

Undanfarið ár hafa ráðuneyti og stofnanir unnið að meginmálaflokkum með aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og eru áfangaskýrslur í meginmálaflokkum ráðuneytanna nú komnar út. Meginmálaflokkarnir komu í kjölfarið á tilraunaverkefnum sem unnin voru á árunum 2010-2011 en þau voru fyrsta skrefið í að þróa tæki og aðferðir fyrir Ísland ásamt því að byggja upp þekkingu og efla vitund um mikilvægi kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. 

Ársskýrsla Jafnréttisstofu fyrir árið 2011 komin út

Árið 2011 var viðburðaríkt í jafnréttismálum og miklar annir á Jafnréttisstofu eins og jafnan áður. Þriðja árið í röð mældist Ísland í efsta sæti á lista World Economic Forum yfir kynjajafnrétti í heiminum. Hér á landi var haldið jafnréttisþing, samþykkt ný framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, stór skýrsla var gefin út um ofbeldi í nánum samböndum, hópur settur á laggir um aukna þátttöku karla í jafnréttismálum og fleira mætti telja.

Menning og skipulag háskóla frá kynjasjónarmiði

MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna býður upp á opinn fyrirlestur í Odda 202 þann 24. ágúst kl. 12-13. Fyrirlesari er Pat O’Connor, prófessor í félagsfræði við Limerick háskóla á Írlandi en hennar fyrirlestur nefnist “Menning og skipulag háskóla frá kynjasjónarmiði”. Fyrirlesturinn fer fram á milli kl. 12-13.  

Jafnréttissjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki

Jafnréttissjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Tilgangur sjóðsins er að efla kynjarannsóknir og stuðla þannig að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis. Í samræmi við hlutverk sjóðsins verða veittir styrkir til rannsókna sem tengjast jafnréttismálum.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn 14. september nk. á Akranesi. Landsfundur jafnréttisnefnda er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum.

Upplýsingar um ESB og jafnréttismál á heimasíðu Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur tekið saman yfirlit um jafnrétti kynjanna og Evrópusambandið. Í samantektinni er að finna upplýsingar um helstu áherslur Evrópusambandsins, stöðu jafnréttismála innan ESB, lagaramma ESB í jafnréttismálum, stofnanir og sjóði. Einnig er að finna upplýsingar um íslensk Evrópuverkefni og tilskipanir ESB sem Ísland hefur innleitt.

Þáttaskil í sögu þjóðkirkjunnar

Á undanförnum árum hefur kvenprestum fjölgað töluvert á Íslandi en þær hafa þó ekki verið áberandi í valdastöðum innan kirkjunnar.  Því var það það söguleg stund þegar sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir fyrsta konan sem var vígð sem sóknarprestur á Íslandi árið 1974 lagði  biskupskápuna á axlir sr. Agnesar M. Sigurðardóttur fyrsta kvenbiskups Íslands við vígslu hennar í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag.