Fréttir

Nýr bæklingur um forvarnir og aðstoð við þolendur mansals

The European Women´s Lobby sem er þrýstihópur kvenna innan Evrópuráðsins hefur gefið út nýjan bækling um forvarnir og aðstoð við konur sem hafa orðið fyrir mansali til kynlífsþrælkunar.

Hvernig sköpum við atvinnulíf framtíðarinnar?

Jafnréttisstofa, Símey, Norrænt net um fullorðinsfræðslu, Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins og Háskólinn á Akureyri efna til málþings um atvinnulíf framtíðarinnar föstudaginn 21. nóvember. Sérstakur gestur verður Ingegerd Green frá Svíþjóð, sem er ráðgjafi í fyrirtækjarekstri með sérstöku tilliti til framtíðarþróunar og sköpunar. Ingegerd var aðalhöfundur norrænu skýrslunnar Framtidens kompetenser (2007) en að baki hennar stóð norrænn þankabanki um færni framtíðar skipaður sérfræðingum á ýmsum sviðum.

Unga fólkið sýnir jafnréttismálum áhuga

Nemendur í 8. bekk í Lundarskóla á Akureyri heimsóttu Jafnréttisstofu í vikunni en þau taka þátt í þróunarverkefninu jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Tilgangur heimsóknar þeirra var að aðstoða starfsfólk Jafnréttisstofu að telja og flokka nýútgefinn bækling um jafnrétti kynjanna.  Unga fólkið sýndi jafnréttismálunum mikinn áhuga og hafði sterkar skoðanir hvað varðar jöfn tækifæri drengja og stúlkna.  

Jöfnum leikinn

Ný jafnréttislög tóku gildi fyrr á þessu ári og af því tilefni hefur Jafnréttisstofa gefið út bækling um lögin, sem dreift er á öll heimili í landinu. Í bæklingnum eru helstu markmið og ákvæði laganna kynnt á aðgengilegan hátt, auk þess sem farið er yfir helstu verkefni Jafnréttisstofu. Útgáfunni er ekki síst ætlað að auðvelda almenningi að átta sig á þeim mikilvægu réttindum, sem lögin tryggja.

Lifir landsbyggðin án kvenna?

Á morgun, fimmtudaginn 13. nóvember, klukkan 16.00-1800 verður haldið málþing um kyn og byggðaþróun í Háskóla Íslands á vegum RIKK í stofu 101, Lögbergi. Sérstakur gestur málþingsins er Dr. Rasmus Ole Rasmussen, prófessor í hagrænni landfræði við Roskilde Háskólann í Danmörku og forstöðumaður NORS, rannsóknastofnunar um byggðaþróun Norður – Atlantshafs svæðanna.

Er stjórnmálaþátttaka karla og kvenna ólík?

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur fjallar í erindi á Jafnréttistorgi við Háskólann á Akureyri á morgun, miðvikudaginn 12. nóvember, um stjórnmálaþátttöku karla og kvenna og hvort munur sé á henni. Með stjórnmálaþátttöku er átt við flokkshollustu, aðild að flokkum, þátttöku í prófkjörum og ekki síst kosningahegðun.

Reykjavíkurborg nær árangri í baráttunni við launamun

Ómálefnalegur launamunur á dagvinnulaunum borgarstarfsmanna er hverfandi, samkvæmt rannsókn sem kynnt verður á opnum kynningarfundi hjá Reykjavíkurborg í dag. Rannsóknin beindist að þróun launamunar hjá Reykjavíkurborg í ljósi þeirrar stefnu borgarinnar að ná niður ómálefnalegum launamun á milli hópa, svo sem kynja, faghópa og stéttarfélaga.

Neyðarstjórn kvenna býður þingmönnum á námskeið

Hópur sem kallar sig Neyðarstjórn kvenna hefur boðið öllum þingmönnum og fulltrúum í Jafnréttisráði á námskeið í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Í bréfi hópsins til þingmanna og Jafnréttisráðs segir að mikilvægt sé að endurreisn landsins eftir hrun byggi á þeim alþjóðasamþykktum sem kveða á um að kynjasjónarmið verði höfð að leiðarljósi við alla stefnumótun.

Vilja jafna hlut kynjanna í stjórnum fjármálafyrirtækja

Lögbinda ætti hlut kynjanna í stjórnum fjármálafyrirtækja samkvæmt frumvarpi fjögurra þingmanna, sem lagt var fram á Alþingi í síðustu viku. Þar er lagt til að lögum um fjármálafyrirtæki verði breytt, þannig að við kjör í stjórn verði tryggt að þar sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.