Fréttir

Kallað eftir framkvæmda- og aðgerðaáætlunum stjórnvalda

Árið 1985 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um Afnám allrar mismununar gagnvart konum en hann var samþykktur á vettvangi SÞ árið 1979. Síðan þá hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda verið kallaðir nokkrum sinnum fyrir CEDAW nefndina til að gera grein fyrir því hvernig staðið hefur verið við samninginn. Þetta er eins konar yfirheyrsla þar sem fyrst er flutt skýrsla landsins en síðan spyrja nefndarmenn fulltrúana spjörunum úr um ýmis atriði sem þeim finnst að betur megi fara eða hvers vegna ekki sé búið að bæta úr því sem athugasemdir voru gerðar við síðast. Fulltrúar Íslands voru kallaðir fyrir nefndina 17. febrúar síðast liðinn og nú eru athugasemdir CEDAW nefndarinnar komnar fram. Kvenréttindafélag Íslands hefur vakið athygli á þeim og þær kalla sannarlega á umræður. Athugasemdirnar eru fjölmargar en sérstaklega er lögð áhersla á eftirfarandi:  1. að stjórnvöld samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna, og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti út um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum (verkefnið „Að halda glugganum opnum“). 2. að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti, og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar (stöðu sendiherra)

Bæklingur um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Allir eiga rétt á því að starfsumhverfi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum. Í því felst að starfsmenn eiga rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Nú er kominn út bæklingur þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Að bæklingnum standa ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa. Hann kemur út í dag, 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

8. MARS ALÞJÓÐLEGUR BARÁTTUDAGUR KVENNA

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og af því tilefni er boðið upp á spennandi viðburði bæði á Akureyri og í Reykjavík. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér og taka þátt í viðburðum dagsins. Uppeldi barna í anda jafnréttis verður rætt á Akureyri, Örugg í vinnunni? er á dagskrá á Grand Hótel, Konur í stéttastríði í Iðnó, opið hún hjá Stígamótum og fyrirlestur um stöðu kvenna innan ASÍ á Þjóðminjasafninu. 

Uppeldi barna í anda jafnréttis

Þann 8. mars n.k, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, standa Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa  fyrir hádegisfundi í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fundurinn sem ber yfirskriftina Uppeldi barna í anda jafnréttis hefst með léttum veitingum kl: 11:30. Fyrirlesarar eru Brynhildur Þórarinsdóttir móðir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri og Jón Páll Eyjólfsson faðir og leikhússtjóri Menningarfélags Akureyrar. Brynhildur kallar erindi sitt Þegar Messi fór að spila í prinsessubleiku  - Hugleiðing um fyrirmyndir og staðalmyndir en Jón Páll nefnir sitt erindi Svarthöfði sigraður? Fundarstjóri verður Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra.

Örugg í vinnunni?

Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð efna til hádegisverðarfundar þriðjudaginn 8. mars 2016 þar sem fjallað verður um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Jafnrétti í sveitarfélögum

Sérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu, SALAR, munu vera með kynningu á málþinginu 31. mars og vera leiðbeinendur á námskeiðinu 1. apríl. SALAR hefur um nokkra ára skeið, með fjárstuðningi frá sænska ríkinu, stutt sænsk sveitarfélög í að gera jafnréttismál sjálfbær innan sveitarfélaga. Áherslan hefur verið á að kynjasjónarmið séu samþætt inn í starfsemi sveitarfélaga og aðferðir kynjasamþættingar nýttar til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu. Á málþinginu verða einnig íslenskar kynningar og umræður um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Dagskrá málþingsins er hér að neðan. Það hefst kl. 13:30 og lýkur kl. 17:00. Á námskeiðinu verður farið dýpra ofan í hagnýta aðferðarfræði við beita kynjasamþættingu í starfsemi sveitarfélaga og á einstökum sviðum, svo sem í skipulagsmálum, félagsþjónustu, menningar- og tómstundamálum og skólamálum. Námskeiðið mun fara fram á ensku. Það hefst kl. 09:00 og lýkur kl. 16:00. 

Jafnréttisþing og fræðslufundir í Ísafjarðarbæ

Jafnréttismál hafa verið í brennidepli í Ísafjarðarbæ að undanförnu en Grunnskólinn á Ísafirði hélt  nýverið metnaðarfullt jafnréttisþing þar sem allir nemendur í 6. - 10. bekk tóku þátt og var þeim skipt í hópa þvert á árganga. Elstu nemendur skólans stýrðu umræðum í sínum hópum en þessir nemendur fengu fyrir þingið sérstakar leiðbeiningar og þjálfun í hópstjórn. Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, tók þátt í deginum með innleggi í upphafi þingsins og fylgist síðan með vinnu hópanna sem var einkar áhugaverð og fróðleg. Nemendur ræddu saman um gildi þess fyrir stráka og stelpur að lifa í jafnréttissinnuðu samfélagi og settu fram hugmyndir sínar um hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar geta gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar. 

Leyndarmál kynhyggju

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 24. febrúar fjallar Jón Birkir Bergþórsson, mastersnemi við Háskólann í Árósum, um leyndarmál kynhyggju. Hann ætlar að tala um hvað kynhyggja er og hvernig hún liggur að hjarta allri femínískri hugsun og hugmyndafræði. Hann mun svo ræða hvernig hugmyndafræði femínisma hefur þróast til þess að svara kynhyggjunni og af hverju hún er svo skaðleg fyrir bæði konur og karla.  Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og HA.

Staða kvenna í sauðfjárrækt

Landssamtök sauðfjárbænda hafa hafið vinnu við úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt og er fyrsta áfanga úttektarinnar nú lokið. Tilgangurinn er að skoða hvort halli á konur innan greinarinnar og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Nokkur verkefni hafa verið sett á laggirnar til að bæta stöðu kvenna í landbúnaði undanfarin ár, s.s. jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og verkefnin Byggjum brýr, Fósturlandsins freyjur og lifandi landbúnaður. Þessi verkefni hafa náð ágætum árangri en ráðast þó ekki að rótum vandans. Segja má að niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á stöðu kynjanna í landbúnaði beri allar að sama brunni. Rétt og sanngjörn skráning eigna er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að jafnrétti kynjanna en enn hefur ekki verið framkvæmd ítarleg úttekt á eignaréttarstöðu kynjanna í landbúnaði hér á landi. 

Ráðstefna um stöðu karla í yngri barna kennslu

Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, SKÁL, Samband íslenskra sveitarfélaga, RannUng og menntamálaráðuneytið efna til ráðstefnunnar Karlar í yngri barna kennslu – hvað ætlar þú að gera? á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 12. febrúar næstkomandi.