Fréttir

Vefgátt um jafnréttismál á Íslandi - á ensku

Kvenréttindafélag Íslands hefur opnað vefgátt á heimasíðu sinni þar sem erlendir gestir og blaðamenn geta nálgast upplýsingar um stöðu kvenna á Íslandi og jafnrétti kynjanna. Á þessari síðu er að finna lýsingar á og krækjur í greinar og skýrslur um stöðu kvenna og jafnrétti kynjanna á Íslandi sem skrifaðar hafa verið á ensku.

Ný vefsíða um jafnlaunastaðalinn

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opnaði nýja vefsíðu um jafnlaunastaðalinn á morgunverðarfundi þann 24. október. Á fundinum var fjallað tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins en síðan er hluti af því verkefni og birtir greinargóðar upplýsingar um staðalinn og notkun hans. Staðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun og hann nýtist atvinnurekendum til að bjóða starfsfólki réttláta og gagnsæja launastefnu.

Áfram stelpur og strákar komið þið með!

Saga, starfsmat, völd og virðing kvenna var til umræðu á hádegisfundi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir í samstarfi við Akureyrarbæ í tilefni Kvennafrídagsins í gær. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu rakti söguna og hvernig konur hafa ætíð verið til færri fiska metnar. Lengi vel höfðu þær einungis hálf laun á við karla og nú sýna tölur Hagstofunnar að konur hafa tæplega 30% lægri meðaltekjur af atvinnu en karlar. Mikið verk er því enn óunnið. Kristín lauk máli sínu á því að hvetja fundarmenn til dáða. „Áfram stelpur og strákar komið þið með.“

Heimilisofbeldi er ekki einkamál fjölskyldna heldur varðar samfélagið allt

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á Lögfræðitorgi Háskólans á Akureyri í stofu M101 nú í hádeginu. Þar fjallar Svala Ísfeld Ólafsdóttir um nýtt ákvæði í almennum hegningarlögum sem ætlað er að vinna gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Einnig lýsir hún aðdraganda ákvæðisins og forsendum, efni þess og tilgangi, auk þeirra sjónarmiða sem það byggir á. Svala Ísfeld Ólafsdóttir er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og formaður refsiréttarnefndar.

RÚV, Kynjabilið og Björg Einarsdóttir hlutu fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs

Í dag, á Kvennafrídaginn þann 24.október, veitti Jafnréttisráð, ásamt ráðherra jafnréttismála, Eygló Harðardóttir sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu í annað sinn. Fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs geta hlotið aðilar sem hafa skarað fram úr þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Í ár eru veittar viðurkenningar þremur flokkunum: a. RÚV hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynjanna í umfjöllun og meðal starfsfólks. b. Kynjabilið hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir nýstárlega og spennandi framsetningu á fréttum og upplýsingum um ójafnrétti kynjanna í samfélaginu. c. Björg Einarsdóttir hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir einstakt og óeigingjarnt starf við skrásetningu á sögu kvenna og umfjöllun um jafnréttismál.

Kvennafrídagurinn 24. október 2016

Í tilefni Kvennafrídagsins mánudaginn 24. október boða Jafnréttisstofa og Akureyrarbær til opins hádegisfundar á Hótel KEA. Á fundinum verður fjallað um launajafnrétti kynjanna en rannsóknir sýna að enn hallar á konur í launa- og kjaramálum. Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti lét vinna launakönnun sem tók til vinnumarkaðarins í heild. Í könnuninni sem tekur til áranna 2008 til 2013 kemur fram að kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; 7,8% á almennum vinnumarkaði og 7,0% á opinberum vinnumarkaði.

Kvennafrídagurinn á Seyðisfirði

Skólafólk á Seyðisfirði ætlar að hittast á Sólveigartorgi klukkan 15:00 í dag, Kvennafrídaginn, til að taka afstöðu með kjarajafnrétti. Seyðfirðingum er boðið að fjölmenna líka. Fundurinn er fyrst og fremst táknrænn gjörningur án ræðuhalda og eru konur og karlar hvött til að mæta. Til gamans má geta þess að Sólveigartorg var vígt þann 19. júní 2015, í tilefni af 100 ára kosningaafmælis kvenna.

Upprætum kynferðislega áreitni á vinnustöðum

Þriðjudaginn 25. október kl. 8:00 - 10:00 heldur Vinnueftirlitið í samstarfi við Velferðarráðuneytið morgunfund í Gullteig á Grand Hóteli. Fundarstjóri verður Ásta Snorradóttir, fagstjóri hjá Vinnueftirlitinu Fundurinn er öllum opinn. Þátttökugjald er kr. 3.000,- og er morgunverður innifalinn. Skráðu þig hér Tengd skjöl: Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni eða ofbeldi: Leiðbeiningarrit fyrir starfsfólk Sættum okkur ekki við einelti, áreitni eða ofbeldi: Leiðbeiningarrit fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa

Jafnréttistorg: Ímynd og staða íslenskra kvenna - ákveðin mótsögn?

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 26. október, kl. 12.00-12.50, mun dr. Guðný Gústafsdóttir fjalla um spurninguna ímynd og staða íslenskra kvenna – ákveðin mótsögn? og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Ímynd kvenna á Íslandi samtímans hefur verið samofin kynjajafnrétti. Ímyndin á rætur í sögunni og var á síðustu áratugum styrkt með félagslegum athöfnum, svo sem kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta árið 1980 og framboði Kvennalista til Alþingis. Þegar ímyndin er mátuð við stöðu kvenna kemur í ljós ákveðin mótsögn. Þrátt fyrir framgang kvenna, formlegt kynjajafnrétti, mikla menntun og atvinnuþátttöku, hafa völd og áhrif kvenna í hinu opinbera rými haldist takmörkuð. Í doktorsritgerðinni var leitast við að varpa ljósi á þessa mótsögn með því að greina hugmyndir um kvenleika og þann þegnrétt sem þeim fylgdi í orðræðu tímarita sem gefin voru út á tímabilinu 1980-2000. Ímynd hins kvenlega þegns á Íslandi samtímans er greind með hliðsjón af menningarbundnum, pólitískum og hugmyndafræðilegum áhrifavöldum. Dr. Guðný Gústafsdóttir er menntuð í félagsfræði og norrænum og þýskum bókmenntum, auk rekstrar- og viðskiptafræði. Hún hefur meistarpróf (MA) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2009, og doktorspróf (PhD) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2016. Guðný starfar við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.

Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir

Nú í sumar fékk Jafnréttisstofa styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til verkefnisins Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir. Markmið verkefnisins er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla, sbr. 4. gr. jafnréttislaga. Miðvikudaginn 12. október, kynnti Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, og Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, sviðsforseti heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, verkefnið í tengslum við jafnréttisdaga háskólanna.