Fréttir

Námskeið Jafnréttisnefndar KÍ og Jafnréttisstofu

Jafnréttisnefnd KÍ og Jafnréttisstofa bjóða grunnskólakennurum upp á hagnýtt námskeið í jafnréttis- og kynjafræðikennslu. Námskeiðið er aðallega hugsað fyrir kennara í efri bekkjum grunnskólans (5.-10. bekk) og hentar fyrir kennara í öllum fögum. Námskeiðið fer fram fimmtudaginn 18. ágúst kl. 14-16 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík. Skráning á námskeiðið fer fram á HÉR Ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá sig! Sjá einnig facebook síðu námskeiðsins HÉR

Góðar heimtur á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga

Jafnréttisstofa hefur tekið á móti og samþykkt jafnréttisáætlanir hjá 54 af 74 sveitarfélögum landsins. Þetta eru heimtur upp á 73%, sem telst mjög góður árangur. Í samræmi við 12. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum  frá öllum sveitarfélögum í október 2015. Jafnréttisstofa fór yfir allar innsendar jafnréttisáætlanir og gerði athugasemdir við þær kom með  ábendingar eftir því sem átti við. Um mánaðamótin júní/júlí var verkefninu lokið af hálfu Jafnréttisstofu, en þá var ítrekað búið að hafa samband við þau sveitarfélög sem ekki voru búin að senda inn jafnréttisáætlanir til samþykktar. Jafnréttisstofa tekur að sjálfsögðu enn á móti jafnréttisáætlunum frá þeim sem ekki hafa skilað áætlun til samþykktar ennþá.

Takið daginn frá

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn á Akureyri föstudaginn 16. september n.k. Í tengslum við fundinn boðar Jafnréttisstofa til ráðstefnu í tilefni fjörutíu ára afmælis jafnréttislaga. Ráðstefnan, sem er öllum opin, fer fram fimmtudaginn 15. september.

Jafnréttismat á frumvörpum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að með nýju frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar, fylgir sérstakt jafnréttismat. Jafnréttismatið er unnið í samræmi við innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Samkvæmt áætluninni skal jafnréttismeta 10% frumvarpa sem lögð eru fram í ár og á hlutfallið að vera komið upp í 100% frumvarpa árið 2019. 

Jafnréttisvísar

Norrænaráðherranefndin gefur út  Jafnréttisvísa sem nú eru einnig aðgengilegir á íslensku. Jafnrétti kvenna og karla er grundvallargildi á Norðurlöndum. Kynjajafnrétti vísar til jafns réttar, jafnrar ábyrgðar og jafnra tækifæra á öllum sviðum lífsins fyrir konur og karla og stráka og stelpur. Það þýðir að allir einstaklingar – óháð kyni – hafa jafn mikil völd og áhrif í samfélaginu. Nauðsynlegt er að nota vísa og taka saman tölfræði sem endurspeglar líf kvenna og karla til að fylgjast með framförum á þessu sviði, til að takast á við vandamál og til að byggja stefnumótun og áætlanir á – en líka til að miðla þekkingu til almennings. Söfnun og notkun tölfræðiupplýsinga um jafnrétti kynjanna er lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti kynjanna í samfélaginu.

Vísindaskóli unga fólksins heimsækir Jafnréttisstofu

Í dag komu krakkar úr Vísindaskóla unga fólksins í heimsókn á Jafnréttisstofu. Hópurinn hafði fengið það verkefni að vinna frétt um starfsemi stofnana að Borgum á Akureyri. Því var kjörið að taka viðtal við framkvæmdastýru Jafnréttisstofu og spyrja hana um dagleg verkefni, hlutverk jafnréttislaga og ræða stuttlega um stöðu karla og kvenna á Íslandi.  Krakkarnir vinna síðan efnið úr viðtölum í þátt sem sýndur er í Vísindaskólandum. Tilgangur skólans er að veita krökkum tækifæri til að læra um málefni sem tengjast réttindum barna, heilsu, tækni, fjölmiðlum og umhverfismálum. Vísindaskólinn er nú starfræktur í annað sinn við Háskólann á Akureyri. 

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands

Á kvenréttindadaginn þann 19. júní afhenti Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra styrki  úr Jafnréttissjóði Íslands. Tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar úr sjóðnum sem stofnaður var í fyrra í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Alls bárust 142 umsóknir en 42 umsækjendur hlutu styrk. Jafnréttisstofa var meðal þeirra sem hlutu styrk fyrir verkefnið „Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir“ sem miðar að því að vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla í námi og starfi.  

Dagskrá á kvenréttindadaginn 19. júní

Kvenréttindadagurinn 19. júní verður haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Akureyri.  Í Reykjavík verður lagður blómsveigur frá Reykvíkingum að leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur klukkan 14:30. Að athöfn lokinni verður gengið að Hallveigarstöðum þar sem félög kvenna  bjóða til kaffisamsætis kl. 15:00. Í ár er fundurinn helgaður forsetakosningunum og eru gestir fundarins konur í framboði til embættis forseta Íslands. Á Akureyri hefst kvennasöguganga klukkan 11:00. Aað þessu sinni verður gengið  í fótspor kvenna sem settu svip á Brekkuna en lagt er af stað frá Lystsigarðinum.

Fyrirlestur Ruth Rubio-Maríon

Jafnréttisstofa birtir í dag fyrirlestur spænska lagaprófessorsins Ruth Rubio-Marín, í íslenskri þýðingu Ingunnar Sigríðar Árnadóttur, sem nú er að ljúka meistaraprófi í lögfræði.  Fyrirlesturinn var haldinn þann 6. maí síðastliðinn, sem inngangsræða á ráðstefnunni Konur í Evrópu og umheiminum (Women in Europe and in the World) og fjallar um birtingarmyndir kúgunar kvenna í Evrópu. Umræðan tekur sérstaklega fyrir ofbeldi gegn konum, misneytingu og jaðarsetningu, valdaleysi ásamt því að ræða tengsl jafnréttis og menningarlegrar heimsvaldastefnu.  Ruth Rubio-Maríon telur að umræða um jafnréttismál standi á tímamótum og segir að ef ekki verði tekist á við þau málefni sem tengjst lýðræði og stöðu kvenna, geti það haft alvarlegar afleiðingar á samfélagsþróun í Evrópu.  Fyrirlesturinn birtist nú í dag á fjölmörgum tungumálum, víða í Evrópu – enda athyglisvert innlegg í umræðu um stöðu kynjanna (Sjá: Hér)

Kvennasöguganga á Akureyri 19. júní

Sunnudaginn 19. júní n.k. býður Jafnréttisstofa til kvennasögugöngu á Akureyri  í samstarfi við Héraðsskjalasafnið, Minjasafnið, Akureyrarbæ og  Zontaklúbbana á Akureyri. Gengið verður í fótspor kvenna sem settu svip á Brekkuna. Kristín Aðalsteinsdóttir prófessor leiðir gönguna sem hefst í Lystsigarðinum klukkan 11:00. Göngufólk mæti á flötina við Café Laut.