Dagatal Jafnréttisstofu fyrir árið 2017 er komið út. Að þessu sinni er dagatalið helgað mannréttindabaráttu í víðum skilningi með tilvitnun í 65. grein stjórnarskrár Íslands en þar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“
Að venju er dagatalinu dreift til sveitarfélaga, skóla, stofnanna og fyrirtæja um land allt. Þeir sem hafa áhuga á að eignast dagatalið geta sent póst á netfangið jafnretti[hjá]jafnretti.is eða hringt í síma 460-6200 og fengið það sent sér að kostnaðarlausu. Stærð dagatalsins er 38*62cm.
27.01.2017
Í velferðarráðuneytinu er starfræktur Jafnréttissjóður Íslands sem stofnaður var á grundvelli þingsályktunar nr. 13/144 sem samþykkt var í tilefni 100 ára kosningaréttarafmælis íslenskra kvenna. Megintilgangur Jafnréttissjóðs Íslands er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem efla eiga jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.
27.01.2017
Þann 1. mars verður opnað fyrir umsóknir ársins 2017 í Norræna jafnréttissjóðinn!
Jafnréttissjóður Norrænu ráðherranefndarinnar styrkir verkefni þar sem minnst þrjú Norðurlönd vinna saman til að koma á jafnrétti kynja. Frá árinu 2013 hafa yfir 40 verkefni verið styrkt. Niðurstöður verkefnanna hafa verið fjölbreytt, allt frá þjálfun í stefnumótun til myndun nýrra norrænna tengslaneta.
24.01.2017
Árið 2017 fer Noregur með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og hefur nú lagt fram áherslur sínar í jafnréttismálum. Þær byggja á samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um jafnrétti kynja 2015-2018 sem ber yfirskriftina Saman í þágu jafnréttis – öflugri Norðurlönd. Áherslur ársins eru að vinna gegn ofbeldi og hatursorðræðu, jafnrétti á vinnumarkaði og karlar og jafnrétti. Fyrsti viðburður ársins verður ráðstefna um jafnrétti á vinnumarkaði undir yfirskriftinni Vinnumarkaður framtíðarinnar sem haldin verður í Osló dagana 7.-8. febrúar.
24.01.2017
Árleg vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) verður haldin 1. apríl n.k. í samstarfi við Jafnréttisstofu.
Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi.Samkvæmt gildandi menntastefnu er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum.
19.01.2017
Þorsteinn Víglundsson nýr ráðherra jafnréttismála átti fund með Kristínu Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu fyrr í vikunni. Til umræðu voru helstu verkefni sem framundan eru á sviði jafnréttismála með áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og innleiðingu jafnlaunastaðals.
18.01.2017
María Rut Kristinsdóttir sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu var með áhugavert erindi í hádeginu í dag í boði Jafnréttisstofu. Tilefnið var 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Í erindi sínu kynnti María Rut fyrstu tillögur samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Fjölmennt lið lögreglu sótti fyrirlesturinn ásamt öðru fagfólki. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust og sagði María Rut umræðurnar gott veganesti inn í frekari vinnu samráðshópsins.
Samráðshópnum, sem skipaður var í mars á þessu ári, er ætlað að kortleggja stöðu mála og leggja fram aðgerðaáætlun sem miðar meðal annars að því að tryggja réttaröryggi, vandaða málsmeðferð og auka traust á réttarvörslukerfinu.
08.12.2016
Út er komin ársskýrsla Jafnréttisráðs fyrir tímabilið 2015-2016, en ráðið er ein af fastanefndum velferðarráðuneytisins og starfar á grundvelli laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008.
06.12.2016
Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er pólitískur samstarfsvettvangur evrópskra sveitarfélaga og svæða. Ísland á þrjá fulltrúa á þinginu sem stjórn sambandsins tilnefnir til fjögurra ára í senn. Þingið kemur saman tvisvar á ári, að vori og hausti. Haustþingi er nýlega lokið og þar var samþykkt ályktun um kynjaða fjárhagsáætlanagerð.
30.11.2016
Á opnum fundi Jafnréttisstofu, sem haldinn var í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, hélt Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans fyrirlestur um mörk fjölmiðla í tengslum við fréttaflutning af kynferðisbrotum. Þórunn ræddi nokkur nýleg dæmi um slíka umfjöllun og spurði hvernig fréttaflutningur stæðist kröfur sem settar eru fram í siðareglum blaðamanna.
29.11.2016