Fréttir

Ályktun stjórnar KRFÍ um kynfæragötun

KFRÍ hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:Kvenréttindafélag Íslands varar við svokallaðri „kynfæragötun" sem hefur færst í vöxt meðal ungra kvenna að undanförnu. Ætla má að klámvæðing samfélagsins sé rót þessarar auknu eftirspurnar. Klámvæðingin hefur síast inn í vitund kvenna jafnt sem karla og kemur t.d. glögglega í ljós í poppmenningunni og í auglýsingum. Klámvæðingin stuðlar að „normaliseringu" kláms og afleiðingum þess, s.s. kaupum á vændi, mansali, o.s.frv. Kynfæragötun getur auk þess haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir konur.

Jafnréttisdagar Háskóla Íslands

Dagana 20.-24. september verða Jafnréttisdagar haldnir í Háskóla Íslands annað árið í röð. Líkt og í fyrra verður dagskráin afar fjölbreytt og verður fjallað um jafnrétti í víðum skilningi og frá mismunandi sjónarhornum. Að dögunum standa fjölmargir aðilar innan Háskólans sem tengjast jafnréttismálum, rannsóknastofnanir, námsbrautir, ýmis hagsmunafélög nemenda, jafnréttisnefndir innan skólans og fleiri aðilar, auk aðila utan skólans.

Kynjafræðileg greining á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Í skýrslu þingmannanefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sérstakur kafli þar sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar er greind út frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Greiningin er unnin af dr. Þorgerði Einarsdóttir, prófessor og dr. Gyðu Margréti Pétursdóttur, aðjúnkt.

Starfsemi Karla til ábyrgðar tryggð

Vegna umræðna í fjölmiðlum síðustu daga um erfiða fjárhagsstöðu verkefnisins Karlar til ábyrgðar, er rétt að koma þeim ánægjulegu tíðindum á framfæri að ráðuneyti félags- og tryggingamála hefur ákveðið að veita viðbótarfé til starfseminnar. Þetta meðferðarúrræði fyrir karla sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar sinnar verður því starfrækt áfram. Ljóst er að þörfin er veruleg því frá endurreisn starfseminnar árið 2006 hafa á annað hundrað karla leitað til úrræðisins.

Staðalímyndir og líðan kynjanna á unglingastigi í tengslum við náms- og starfsval

Fimmtudaginn 9. september heldur Kristján Ketill Stefánsson, stundakennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur er nefnist „Staðalímyndir og líðan kynjanna á unglingastigi í tengslum við náms- og starfsval“. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.

Jafnréttisstofa 10 ára

Jafnréttisstofa verður 10 ára þann 15. september. Af því tilefni verður efnt til afmælisráðstefnu í Ketilhúsinu 10. september frá kl. 13.15-16.30. Ráðstefnan er haldin í tengslum við árlegan landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem verður á Akureyri 10.-11. september.

Kirkjan og kynferðisofbeldi

Frá mánudegi til föstudags, 30. ágúst til 3. september 2010, kl. 12.00-13.00, verða haldin fimm erindi um kirkjuna og kynferðisofbeldi á vegum Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk

Mennta- og menningarmálráðuneytið hefur gefið út Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að markmiðið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum.

Kynbundinn launamunur dregst saman hjá Reykjavíkurborg

Úttekt á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg hefur verið lögð fyrir borgarráð en niðurstöður hennar sýna að Reykjavíkurborg hefur náð árangri við að draga úr launamun kynjanna.  Þennan árangur má þakka miðlægri launasetningu og starfsmati, reglum um yfirvinnusamninga, aukinni menntun kvenna og auknum starfsaldri. 

Drög að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur undirbúið tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2010–2014. Framkvæmdaáætlunin hefur verið kynnt í ríkisstjórn og lögð fram í þingflokkum og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fyrir Alþingi í haust sem tillaga til þingsályktunar. Áætlunin er unnin í samráði við einstök ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Einnig var við gerð hennar höfð hliðsjón af umræðum sem fram fóru á jafnréttisþingi sem haldið var í janúar 2009 og skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem var birt þegar þingið var haldið. Framkvæmdaáætlunin er nú birt til umsagnar á vef ráðuneytisins og gefst fólki kostur á að senda ráðuneytinu ábendingar sínar og athugasemdir til 15. ágúst næstkomandi.