Fréttir

Námskeið um jafnrétti og bann við mismunun

Jafnréttisstofa og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa á undanförnum mánuðum boðið upp á námskeið um jafnrétti og bann við mismunun. Námskeiðin hafa staðið stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélögum til boða án endurgjalds þar sem þau eru hluti af Evrópuverkefni sem stutt er að Progress-sjóði Evrópusambandsins.

Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi

Árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) stendur nú yfir í New York og fjallar að þessu sinni um ofbeldi gegn konum og stúlkum, baráttuna gegn því og leiðir til forvarna. Fulltrúar Íslands taka þátt í almennum umræðum og hliðarviðburðum sem tengjast meginefni fundarins. Í ávarpi sem Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunnum, flutti fyrir hönd stjórnvalda var meðal annars fjallað um aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að sporna við ofbeldi gegn konum, rætt um hlutverk og ábyrgð karla og drengja í þessu samhengi og ríki jafnframt hvött til þess að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum sem vernda og efla mannréttindi kvenna.

Samtök um kvennalista 30 ára

Samtök um Kvennalista voru stofnuð 13. mars 1983 og buðu samtökin fram lista í þremur kjördæmum við alþingiskosningar vorið 1983. Kvennalistinn hlaut 5,5% atkvæða og þrjár konur komust á þing, þær Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Kvennalistinn hlaut 10,1% atkvæða í þingkosningunum 1987 og kom sex konum á þing. Árið 1991 var fylgið 8,3% og fimm þingkonur en 4,9% og þrjár þingkonur árið 1995.

Kynlegar tölur 2013

Mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur gefið út bæklinginn Kynlegar tölur sem kemur nú út í þriðja sinn. Bæklingurinn hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu.

Jafnréttisstofa býður upp á jafnréttisfræðslu í skólum

Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Jafnréttisstofu heimsótt grunn- og framhaldsskóla og frætt nemendur um kynjajafnrétti, helstu hlutverk Jafnréttisstofu og staðalmyndir kynjanna í fjölmiðlum og almennt í okkar samfélagi. Boðið hefur verið upp á fræðslu fyrir nemendur í öllum árgöngum grunnskólans að beiðni nokkurra sveitarfélaga en framhaldsskólarnir hafa leitað eftir fræðslu í tengslum við ákveðna námsáfanga og þemadaga.

Bæklingurinn Konur og karlar 2013 kominn út

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2013 í samstarfi við við Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytið.  Um er að ræða samantekt á helstu tölum og hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum. Í bæklingnum er meðal annars að finna upplýsingar um stöðu kynjanna á vinnumarkaði, í menntakerfinu og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn veitir ákveðna yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi og er hann einnig gefinn út á ensku.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars verður boðið upp á spennandi viðburði í Reykjavík, á Akureyri og í Kaupmannahöfn. Fjallað verður um kynhlutverk og kynskiptan vinnumarkað,  útlitsdýrkun og lýtaaðgerðir, nýjar leiðir á traustum grunni, hrun og heimsmet í kynjajafnrétti og þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis. Í tilefni dagsins verður einnig stofnað nýtt félag  um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér viðburði dagsins. 

Baráttusamkoma íslenskra kvenna í Jónshúsi

Árlega baráttusamkoma íslenskra kvenna í Jónshúsi verður föstudaginn 8. mars. Í vor verður kosið til Alþingis og ber dagskráin keim af því. Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, flytur erindi kvöldsins: „Hrun og heimsmet í kynjajafnrétti? Femínisminn – fimm árum síðar“. Að erindi hennar loknu ræða fjórar þingkonur hvað áunnist hefur í jafnréttismálum á undanförnum árum og hver þær telji brýnustu viðfangsefnin á næsta kjörtímabili.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda

Hinn 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er boðað til stofnfundar nýs félags, sem hefur fengið nafnið Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Útlitsdýrkun og lýtaaðgerðir - er of langt gengið?

Þann 8. mars munu Zontaklúbbarnir á Akureyri í samstarfi við Jafnréttisstofu, FSA, Akureyrarbæ, Íslandsbanka, Landsbankann og Sparisjóð Höfðhverfinga boða til hádegisfundar á hótel Kea um útlitsdýrkun og lýtaaðgerðir. Á fundinum mun Ebba M. Magnúsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir velta fyrir sér hvers vegna konur fara í lýtaaðgerðir og afleiðingum þeirra, hvað stýrir sjálfsmynd kvenna á 21. öldinni og hvort útlitsdýrkun sé farin út fyrir ákveðin mörk. Fundarstjóri: Dr. Ólöf Sigurðardóttir, yfirlæknir á rannsóknardeild FSA