Fréttir

Ofbeldi gegn fötluðum konum

Út er kominn bæklingurinn Ofbeldi gegn fötluðum konum. Bæklingurinn var unnin í tengslum við rannsókn á aðgengi fatlaðra kvenna að stuðningsúrræðum vegna ofbeldis. Rannsóknir hafa sýnt að fatlaðar konur eru miklu oftar beittar ofbeldi en fatlaðir karlar. Þær verða líka oftar fyrir ofbeldi en ófatlaðar konur. 

Vinnudagur um jafnréttismál hjá Akureyrarbæ

Stjórnendur hjá Akureyrarbæ ásamt nefndarformönnum, kjörnum fulltrúum og bæjarstjóra sátu síðastliðinn föstudag fræðslu um samþættingu kynjasjónarmiða í starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins. Dagurinn var sérstaklega skipulagður til að miðla þekkingu um árangur verkefna sem horft hafa til jafnréttissjónarmiða við fjárveitingu og þjónustu, ásamt því að kynna markmið kynjaðrar hagstjórnar.

Ályktun fundar Zontaklúbbanna á Akureyri og Jafnréttisstofu á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Sunnudaginn 8. mars var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilefni dagsins boðuðu Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa til hádegisfundar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fundurinn bar yfirskriftina Ofbeldi á heimilum – áhrif á börn Erindi fluttu Björg Guðrún Gísladóttir höfundur bókarinnar Hljóðin í nóttinni, Guðrún Kristinsdóttir ritstjóri bókarinnar Ofbeldi á heimili, Halla Bergþóra Björnsdóttir Lögreglustjóri Norðurlandi eystra og Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar í Eyjafirði. Í kölfar erinda og umræðna voru ályktanir fundarins ræddar og samþykktar.

Ofbeldi á heimilum – áhrif á börn

Sunnudaginn 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilefni dagsins boða Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa til hádegisfundar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fundurinn, sem ber yfirskriftina Ofbeldi á heimilum – áhrif á börn,  hefst klukkan 11:30 með léttum veitingum, - formleg dagskrá hefst klukkan 12:00. Erindi flytja Björg Guðrún Gísladóttir höfundur bókarinnar Hljóðin í nóttinni, Guðrún Kristinsdóttir ritstjóri bókarinnar Ofbeldi á heimili, Halla Bergþóra Björnsdóttir Lögreglustjóri Norðurlandi eystra og Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar í Eyjafirði. Í lokin verður pallborð og umræður. Allir eru hjartanlega velkomnir, aðgangseyrir er enginn en frjáls framlög vel þegin. ---- Sjá nánar hér

Er tími til að njóta lífsins?

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna bjóða Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð til hádegisverðarfundar mánudaginn 9. mars 2015 þar sem fjallað verður um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík kl. 11:45 til 13:00. Erindi á fundinum: Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. - Vinna Íslendingar of mikið? Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði við HÍ. - Rjúkandi rúst? Fæðingarorlof í hruni og endurreisn Þóra Kristín Þórsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði. - Samspil heimilis og vinnu meðal íslenskra hjóna

Akureyrarbær og lögreglan á Norðurlandi eystra vinna gegn heimilisofbeldi

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri Norðurlands eystra, undirrituðu í dag, samstarfsyfirlýsingu um átak gegn heimilisofbeldi. Í yfirlýsingunni felst að þann 1. mars n.k. mun lögreglan og félagsþjónustan á Akureyri taka upp nýjar verklagsreglur í starfsemi sinni. Markmiðin eru markvissari viðbrögð og úrræði gegn heimilisofbeldi og bætt þjónustu við þolendur og gerendur. 

Vinnufundur Jafnréttisstofu, ASÍ og félagasamtaka gekk vel

Rúmlega þrjátíu manns frá fjölmörgum félagasamtökum mættu á vel heppnaðan vinnufund í tilefni tuttugu ára afmælis Peking áætlunarinnar. Til umræðu voru kaflarnir tólf í áætluninni, auk málefna minnihlutahópa, kynvitund og kynhneigð. Unnið var í fimm 8 – 10 manna hópum þar sem þátttakendur ræddu hvað helst vantaði inn í Peking áætlunina miðað við þróunina síðustu tuttugu ára og hvað brýnast væri að gera. Farnar voru þrjár umferðir og skiptu þátttakendur um borð og viðfangsefni milli umferða.

Öskudagur á Jafnréttisstofu

Í dag er öskudagur og gestir Jafnréttisstofu þennan miðvikudagsmorgun hafa því verið óvenju skrautlegir. Hóparnir voru augljóslega búnir að æfa söngvana vel og það mátti líka sjá að metnaður í búningagerð er mikill.  Starfsfólk jafnréttisstofu þakkar öllum sem lögðu leið sína til okkar og látum hér fylgja nokkrar myndir.

Boð um þátttöku á vinnufundi félagasamtaka, ASÍ og Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur sent boð til ýmissa félagasamtaka um þátttöku í vinnufundi í tengslum við tuttugu ára afmæli Peking áætlunarinnar. Fundurinn fer fram næstkomandi laugadag 21. febrúar í húsakynnum ASÍ. Markmið fundarins er að ræða og svara spurningum á borð við: Hvaða ákvæði Pekingsáttmálans hafa íslensk stjórnvöld ekki uppfyllt? Hvað vantar í samninginn miðað við þróun síðustu 20 ára? Hver eru brýnustu verkefni jafnréttismála?

Konur og afbrot

Fimmtudaginn 12. febrúar mun dr. Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, halda erindi um tengsl afbrotafræðinnar og spurninga um jafnrétti kynjanna. Þær spurningar sem verða til umræðu í fyrirlestri Helga eru meðal annars: Er jafnréttisbaráttan bara fyrir konur eða eiga karlar á brattann að sækja? Ef konur færu nú að hegða sér eins og karlar myndi ríkja skálmöld afbrota eða hvað? Ef karlar færu nú að hegða sér eins og konur værum við þá komin í draumasamfélagið? Erindið fer fram í Deiglunni, Listagilinu á Akureyri og hefst klukkan 1700.