Fréttir

Gestir á Jafnréttisstofu

Í síðustu viku fékk Jafnréttisstofa heimsókn frá Human Rights Monitoring Institute í Litháen. Markmið ferðar þeirra til Íslands var að kynna sér starfsemi stofnanna og félagasamtaka hér á landi og mögulegt samstarf í gegnum styrkjakerfi EFTA. Á fundinum með Jafnréttisstofu var farið yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi, jafnréttislöggjöfina og fjallað nánar um nokkur atriði sem gestirnir höfðu áhuga á að kynna sér. Þar ber helst að nefna fæðingarorlofskerfið og kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. 

Brautryðjendur í stjórnmálum hljóta jafnréttisviðurkenningu

Jafnréttisráð veitir árlega jafnréttisviðurkenningar en í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna ákvað Jafnréttisráð í ár að heiðra þær núlifandi konur sem með störfum sínum á Alþingi og í ríkisstjórn hafa rutt brautina og stuðlað að auknu jafnrétti á sviði stjórnmálanna. Konurnar eiga sammerkt að hafa verið fyrstar núlifandi kvenna til að gegna veigamiklum embættum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem forseti Alþingis, sem ráðherra og sem formenn þingflokka. Nánari upplýsingar um verðlaunahafa og myndir frá afhendingunni má sjá á síðu Velferðarráðuneytis.

Skýrsla um jafnrétti á norðurslóðum

Skýrslan Gender Equality in the Arctic: Current Realities, Future Challenges er komin út. Skýrlan er unnin af utanríkisráðuneytinu og byggir á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í lok október síðastliðinn.

Vefsíðan Fjölbreytt forysta er komin í loftið

Vefsíðan fjolbreyttforysta.is er í eigu Jafnréttisstofu og er unnin með styrk frá Progress sjóði ESB. Síðunni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi jafnrar þátttöku kynjanna í forystu íslensks atvinnulífs. Á vefsíðunni er að finna fræðsluefni um stjórnarhætti og stjórnunarstörf og viðtöl við fólk með reynslu af stjórnarsetu, sérfræðinga og fólk úr atvinnulífinu.

Fyrirmyndardagur á Jafnréttisstofu

Í morgun gerðist Guðmunda Finnbogadóttir starfsmaður á Jafnréttisstofu. Tilefnið var Fyrirmyndardagurinn sem haldinn er hátíðlegur í dag 17. apríl af frumkvæði Vinnumálastofnunar. Markmið dagsins er að gefa fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að  bjóða einstaklingum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn í einn dag eða hluta úr degi. Guðmunda gekk rösklega til verks og raðaði fundargögnum í fimmtíu möppur á mettíma.

Jafnrétti á Norðurlöndum 2015

Út er kominn bæklingur sem lýsir stuttlega stöðu jafnréttis á nokkrum sviðum samfélags og lífs fólks á Norðurlöndunum. Meðal þeirra sviða sem lýst er á myndrænan hátt eru: fjölskyldur, vinnumarkaður, menntun, heilbrigði, áhrifastöður, tekjumismunur og völd. Útgáfan er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, sem er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Frekari upplýsingar hér

Námskeið um vottun jafnlaunakerfa

Endurmenntunarstofnun í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur að námskeiði um vottun jafnlaunakerfa. Á námskeiðinu verður fjallað um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vinnurétt, kjarasamninga, launagreiningar og flokkun og mat á verðmæti starfa. Námskeiðinu lýkur með útgáfu skírteinis fyrir þá sem ljúka námskeiðinu með prófi.

„Brenndu þetta snifsi að lestri loknum“

Héraðsskjalasafnið á Akureyri boðar til hádegisfyrirlestrar í Héraðsskjalasafni/Amtsbókasafni, Brekkugötu 17, föstudaginn 10. apríl kl. 12:00 – 13:00. Þar mun Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavörður í Reykjavík fjalla um mikilvægi þess að varðveita einkaskjöl kvenna til jafns við karla. Einnig verða til sýnis nokkur skjöl kvenna sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafninu á Akureyri og munu skjalaverðir í stuttu máli gera þeim skil og segja frá því hvað safnið hefur að geyma. Veitingasala er á staðnum. Súpa, heimabakað brauð og kaffi á kr. 1000.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla

Á morgun, laugardaginn 28. mars, verður opnuð listasýningin MENN í Hafnarborg. Sýningin beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa högum þeirra.  Verkin sem valin hafa verið til sýningar eru unnin í fjölbreytta miðla bæði video-verk, ljósmyndir, málverk, teikningar og útsaumsverk. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna.

Félagsvísindatorg HA í samstarfi við Jafnréttisstofu

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flytur erindið „Ég veit enga ambátt um veraldar geim, sem ekki var borin með réttindum þeim ”, miðvikudaginn 25. mars. Á þessu ári verða liðin 100 ár frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt til Alþingis. Það gekk ekki þrautalaust. Baráttan fyrir kosningarétti hafði staðið í áratugi þegar Danakonungur undirritaði lögin með þessum takmörkuðu réttindum 19. júní 1915. Karlar fengu almennt kosningarétt 25 ára nema hvað fátækum vinnumönnum var bætt við 1915 með sömu skilyrðum og konunum. Hvenær hófst réttindabarátta kvenna hér á landi, fyrir hverju var barist, hverjir studdu baráttuna og í hverju fólst andstaðan? Hvaða konur voru í fararbroddi og hvaða aðferðum var beitt í kvenréttindabaráttunni? Hefur Ísland sérstöðu þegar horft er á baráttu kvenna fyrir mannréttindum? Hvað gerðist svo eftir 1915?