Fréttir

Ályktun Jafnréttisráðs um kynja- og jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum

Á fundi sínum þann 21.október sl. samþykkti Jafnréttisráð eftirfarandi ályktun.  Jafnrétti er ein af grunnstoðum í íslenskum leik- grunn- og framhaldsskólum. Í því ljósi leggur Jafnréttisráð ríka áherslu á að þeir skólar sem annast menntun kennara tryggi öllum kennaranemum í grunnnámi staðgóða fræðslu um jafnréttismál.  Allir kennaranemar verða að búa yfir faglegri þekkingu á jafnréttismálum, ásamt færni til að miðla og vinna með nemendum. Jafnrétti á samkvæmt lögum að vera samofið öllu skólastarfi og því verða öll störf kennara að taka mið af því og skólabragur að einkennast af jafnrétti.  Jafnréttisráð vill í þessu sambandi vekja athygli á nýstofnuðum Jafnréttissjóði Íslands, en þar á sérstaklega að styrkja þróunarverkefni í skólakerfinu og fræðslu í kynjafræðum.

Fjörutíu ára afmæli Kvennafrídagsins

Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur á Akureyri sl. laugardag og þess minnst að fjörutíu ár voru liðin frá því að íslenskar konur fylktu liði og tóku sér frí í einn dag.

Konur í stjórnmálum, reynsla og lærdómur

Föstudaginn 6. nóvember verður haldið málþing undir yfirskriftinni "Konur í stjórnmálum, reynsla og lærdómur". Málþingið fer fram á  Hótel Héraði á Egilsstöðum og hefst klukkan 13.30. 

Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum

Á jafnréttistorgi miðvikudaginn 28. október fjallar Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi um birtingarmyndir þess ofbeldis sem gerendur sjálfir segja frá, skýringar þeirra á ofbeldinu og mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir endurtekið ofbeldi. Þá verður einnig sagt frá reynslu gerenda af ofbeldi í æsku og að lokum boðið uppá stuttar umræður. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og HA og er öllum opið. 

Fjölmiðlaviðurkenning Jafnréttisráðs 2015

Jafnréttisráð óskar eftir tilnefningum til fjölmiðlaviðurkenningar Jafnréttisráðs.  Í ár mun Jafnréttisráð, ásamt ráðherra jafnréttismála, veita sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu aðilum sem hafa skarað fram úr þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Fjölmiðlaviðurkenningin verður afhent á Jafnréttisþingi sem haldið er 25. nóvember næstkomandi. 

Kyn og fræði - Ný þekking verður til

Jafnréttissjóður býður til málþings þar sem kynntar verða niðurstöður rannsókna sem sjóðurinn styrkti 2014 og jafnframt fer fram úthlutun sex nýrra styrkja. Málþingið verður haldið á kvennafrídaginn 24. október 2015 kl. 11-13 í Iðnó.

Fjörutíu ára afmæli Kvennafrídagsins

Laugardaginn 24. október boða Zontakonur á Akureyri í samstarfi við Jafnréttisstofu, Akureyrarbæ og Minjasafnið á Akureyri til afmælisdagskrár í tilefni af fjörutíu ára afmælis Kvennafrídagsins. Dagskráin hefst kl. 11:30 við Aðalstræti 6 þar sem Vilhelmína Lever kaus fyrst íslenskra kvenna.

Borgaraleg réttindi kvenna í 100 ár

Um þessar mundir fagna Norðurlöndin aldarafmæli kosningaréttar kvenna. Finnar héldu upp á áfangann árið 2006, Norðmenn árið 2013 og nú, árið 2015, er komið að Íslandi og Danmörku. Fyrir hönd framkvæmdanefndar Alþingis um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og RIKK, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, verður haldin alþjóðleg hátíðarráðstefna í Hörpu dagana 22.-23. október 2015. 

Kynleg kennsla

Kvenréttindafélags Íslands og Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands býður upp á samnorrænt málþing um kynjafræðikennslu í framhaldsskólum, á Hallveigarstöðum, miðvikudaginn 21. október kl. 15–17. Rætt verður um kynjafræðikennslu á framhaldsskólastigi, áskoranir og tækifæri, kennsluefni, kennsluaðferðir og framtíðarsýn. Málþingið og umræður fara fram á ensku og er öllum opið.

„Að búa til bók og skúrað á eftir“

Fyrsta jafnréttistorg vetrarins í Háskólanum á Akureyri fer fram miðvikudaginn 14. október nk. Þar munu dr. Sigrún Stefánsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir fyrrum alþingiskona og ráðherra flytja innlegg í tengslum við útgáfu bókarinnar Frú ráðherra - frásagnir kvenna á ráðherrastóli eftir Eddu Jónsdóttur og dr. Sigrúnu Stefánsdóttur. Jafnréttistorgið mun fara fram kl. 12.00, í stofu N101 Sólborg v/Norðurslóð og er öllum opið án endurgjalds.