Fréttir

Þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi

Þann 19. júní síðastliðinn var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að stofnaður verði Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 milljónir. kr. á ári. 

Forsætisráðherra vinnur að jafnréttisáætlun HeForShe

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er einn tíu þjóðarleiðtoga sem mun leiða nýtt alþjóðlegt verkefni sem kallast IMPACT 10x10x10 og er liður í HeForShe verkefni UN Women.  Verkefnið mun leiða saman  tíu stjórnmálaleiðtoga, tíu alþjóðleg fyrirtæki og tíu háskólastofnanir með það að markmiði að stuðla að jafnrétti kynjanna með aukinni þátttöku karla í umræðu um jafnrétti.

Ríkisstjórn Íslands samþykkir fimm ára innleiðingaráætlun fyrir kynjaða hagstjórn

Ríkisstjórn Ísland samþykkti innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð fyrir árin 2015 til 2019, á fundi sínum þann 19. júní síðastliðinn.  Í jafnréttislögum, lögum nr. 10/2008, segir að við alla stefnumótun og áætlanagerð á vegum ráðuneyta og opinberra stofnanna skuli kynjasamþættingar gætt. Innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar (KHF) hófst á Íslandi árið 2009 og byggir á aðferðafræði kynjasamþættingar.

Til hamingju með daginn

Jafnréttisstofa verður lokuð frá hádegi föstudaginn 19. júní, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Jafnréttisstofa hvetur landsmenn alla til að halda daginn hátíðlegan og minnir á að viðburðir eru skipulagðir víða um land í dag.  Yfirlit viðburða má finna hér

Kvennasöguganga á Akureyri 18. júní

Fimmtudaginn 18. júní verður kvennasöguganga á Akureyri.  Í ár verður gengið í fótspor Vilhemínu Lever. Vilhelmína er þekkt fyrir að hafa greitt atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 1863. Gangan hefst við Laxdalshús, Hafnarstræti 11, kl. 20.00 og endar á Minjasafninu þar sem gestum er boðið á sýninguna „Ertu tilbúin frú forseti?“ um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta í heiminum. Hanna Rósa Sveinsdóttir safnvörður á Minjasafninu leiðir gönguna.

Ráðstefnan: Fjölbreytt forysta í atvinnulífinu

Á ráðstefnunni Fjölbreytt forysta í atvinnulífinu sem haldin var af Jafnréttisstofu í maí sl. voru tvær íslenskar rannsóknir á stjórnarháttum, viðhorfum stjórnarmanna og vali á stjórnarmönnum á tímum kynjakvóta kynntar. Jafnréttisstofa hefur nú fengið í hendur skýrslur um niðurstöður rannsóknanna sem hægt er að lesa hér að neðan.

Kynbundið launamisrétti rakið til kynbundins vinnumarkaðar

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti hefur kynnt niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsókn, sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun, sem tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi

Í dag fer fram ráðstefnan Fjölbreytt forysta, sem Jafnréttisstofa stendur að í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Kauphöllina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Á ráðstefnunni er fjallað um niðurstöður rannsókna um konur og karla sem stjórnendur og stjórnarfólk í fyrirtækjum. Á ráðstefnunni fjallar Dr. Þorgerður Einarsdóttir, kynjafræðingur um niðurstöður rannsóknarskýrslunnar Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi. 

Alþjóðleg ráðstefna um fjölbreytta forystu í atvinnulífinu

Jafnréttisstofa í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Kauphöllina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík skipuleggur nú alþjóðlega ráðstefnu um fjölbreytta forystu í atvinnulífinu. Ráðstefnan veitir fólki í viðskiptalífinu, fræðimönnum og sérfræðingum tækifæri til að ræða gildi fjölbreyttrar forystu þegar kemur að ákvarðanatöku, rekstri og vinnumenningu fyrirtækja.

Kyn, starfsframi og laun

Miðvikudaginn 20. maí efnir aðgerðahópur um launajafnrétti til morgunverðafundar á Grand Hótel Reykjavík. Á dagskrá fundarins er kynning á niðurstöðum rannsóknar um kynbundinn launamun og skýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Aðgerðahópur um launajafnrétti var skipaður árið 2012. Verkefni aðgerðahópsins eru meðal annars að samræma rannsóknir um kynbundinn launamun og annast kynningu og fræðslu um innleiðingu jafnlaunastaðals. Nánar um dagskrá og skráningu hér.